Fara í efni

 


Hafrannsóknastofnun er stjórnsýslunni til ráðgjafar á sínu verksviði og veitir ráðgjöf um sjálfbæra nýtingu auðlinda í sjó og ferskvatni. 


Öflug vöktun og rannsóknir á lífríki sjávar, vatna og áa eru forsenda sjálfbærrar nýtingar auðlindanna og auka þekkingu á umhverfinu og þeim breytingum sem eru að eiga sér stað.

Hafrannsóknastofnun sinnir margvíslegum grunnrannsóknum sem skipta má í tvo meginflokka, vöktunarrannsóknir og tímabundin rannsóknaverkefni.

 

 

 

 

 

Vöktun og reglubundnar rannsóknir

Umhverfi sjávar er vaktað með reglubundnum mælingum og sýnatökum á föstum stöðvum á sniðum umhverfis Ísland. Leitast er við að framkvæma vöktun á sama tíma ár hvert og tekur leiðangurinn um 12 daga ef veður og sjólag telst skaplegt. Á árinu 2024 fóru fram þrír leiðangrar á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni þar sem umhverfisþættir sjávar voru mældir. Safnað er gögnum um hita, seltu, ólífræn næringarefni, ólífrænt kolefni, súrefni auk annara þátta. Líkt og fyrri ár var í sömu leiðöngrum einnig unnið að öðrum verkefnum á vegum stofnunarinnar auk samstarfsverkefna með ytri aðilum. Vetrarleiðangur stóð yfir á tímabilinu 6.-18. febrúar, vorleiðangur fór fram í maí en er í þeim leiðangri safnað auk umhverfisgagna upplýsingum um plöntusvif og dýrasvif í sjó. Vorleiðangur gefur þannig heildstæðar upplýsingar um stöðu vistkerfisins. Sumarleiðangur fór fram í ágúst en var í þeim leiðangri sinnt óvenjumörgum verkefnum að auki, s.s. rannsóknum í Hvalfirði, vinnu við straumlagnir, vöktun og rannsóknum vegna sjókvíaeldis fyrir austan, vöktun á sæbjúgum og síli.

Vöktun fór einnig fram á hita við strönd og var áfram viðhaldið langtímagagnasöfnun um strauma sjávar á völdum stöðvum í Grænlandssundi og á Hornbanka.

Plöntusvif er undirstaða vistkerfa sjávar og fer fram vöktun á frumframleiðni að vori til í vorleiðangri. Áfram er viðhaldið vöktun á framleiðni með mælingum á blaðgrænu en þótt einnig sé hægt að nýta gögn frá gervitunglum til að meta frumframleiðni við yfirborð sjávar er þörf á reglulegum beinum mælingum samhliða, m.a. til að sannreyna upplýsingar sem fást frá gervitunglum. Þá er ávallt lögð áhersla á að kanna tegundasamsetningu plöntusvifs og fylgst með þróun hennar yfir lengri tíma en búast má við að umhverfisbreytingar (t.d. breytingar á loftslagi og súrnun sjávar) muni leiða til breyttrar tegundasamsetningu, sem getur haft áhrif á vistkerfin. Árið 2024 var áfram unnið að þróun vöktunar með söfnun erfðaupplýsinga úr sjó (eDNA) en slík vöktun getur gefið upplýsingar um hvaða tegundir svifþörunga og annara lífvera eru til staðar á hafsvæðinu.

Dýrasvif gegnir mikilvægu hlutverki í vistkerfi hafsins sem hlekkur í fæðukeðjunni milli svifþörunga og lífvera sem éta dýrasvif, svo sem uppsjávarfiska, fiskungviðis, skíðishvala og sjófugla. Rannsóknir á dýrasvifi miða að því að auka við skilning á líffræði mismunandi tegunda og stöðu þeirra í vistkerfinu. Auk þess fara fram mikilvægar rannsóknir á breytileika í magni, þéttleika og tegundasamsetningu milli hafsvæða og ára með margskonar aðferðum. Þá hefur verið unnið að því á undanförnum árum að þróa frekari leiðir til að nota bergmálsmælingar til mælinga á stórátu (aðallega ljósátu) og eru þær mælingar orðnar að föstum lið í vorleiðangri sem farinn er umhverfis landið. Dýrasvifsrannsóknir eru mikilvægar með tilliti til aukins skilnings á vistfræði hafsins en einnig vegna vaxandi áhuga sjávarútvegsins á veiðum og vinnslu dýrasvifs.

Botnfiskar Vöktun á stofnum botnsjávarfiska og hryggleysingja er stór þáttur í starfi Hafrannsóknastofnunar. Margir helstu nytjastofnar Íslendinga falla undir þessi vöktunarverkefni, svo sem þorskur, ýsa, karfi og rækja. Stofnmælingaleiðangrar á botnfiskum og hryggleysingjum eru flestir farnir árlega en í þeim eru ýmist tekin sýni með botnvörpu eða netum á staðlaðan hátt. Hér má helst nefna stofnmælingu botnfiska að vori og hausti, en þetta eru umfangsmiklir leiðangrar sem ná yfir allt landgrunnið. Einnig er hrygningarstofn þorsks metinn árvisst og lykilstofnar hryggleysingja, s.s. rækju, sæbjúgna og humars, vaktaðir með reglulegum mælingum á veiðislóð. Á undanförnum árum hefur jafnframt aukist notkun myndavélatækni til stofnmælinga og í dag er stofnmæling humars og hörpudisks framkvæmd með neðan-sjávarmyndavélum.

 Helsta markmið stofnmælingaleiðangra er að fylgjast með breytingum á fjölda og aldurssamsetningu nytjastofna sem nýtist svo í ráðgjöf til stjórnvalda. Í stofnmælingaleiðöngrum er jafnframt safnað gögnum um marga aðra þætti, eins og fæðu fiska, ástand þeirra og á síðari árum hafa botndýr verið skráð og þannig fengist mikilvægar upplýsingar um útbreiðslu annara dýra en helstu nytjastofna. Þá gefa reglulegir stofnmælingaleiðangrar tækifæri til að fylgjast með breytingum í dreifingu stofna og nýjum tegundum sem kunna að berast til landsins.

Vöktunarrannsóknir á uppsjávarfiskistofnum eru umfangsmiklar á stofnuninni. Tilgangur þeirra er fyrst og fremst að meta stofnstærð, útbreiðslu, líffræðilegan breytileika og veiðiþoli í tengslum við veiðiráðgjöf. Þessar rannsóknir beinast að loðnu, sumargotssíld, norsk-íslenskri vorgotssíld, kolmunna, makríl og hrognkelsi. Markmið um sjálfbæra nýtingu krefst auk þess fjölbreyttra rannsókna á líffræði, útbreiðslu, göngum, og vistfræðilegum tengslum þessara fiskistofna, þar með talið tengslum þeirra við umhverfi, dýrasvif og afræningja. Þessar vöktunarrannsóknir krefjast mikils úthalds rannsóknaskipa yfir víðáttumikil svæði innan og utan íslensku efnahagslögsögunnar. Fimm umfangsmiklir rannsóknaleiðangrar voru farnir á árinu 2024 með að meginmarkmiði að mæla stofnstærð uppsjávartegunda. Þrír af þeim, fyrir norsk-íslenska síld, makríl og loðnu að hausti, eru alþjóðlegir og eru skipulagðir innan vinnunefnda Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), sem og stofnmatsvinnan í kjölfar þeirra. Þá voru tveir sem eru skipulagðir af Hafrannsóknastofnun, fyrir sumargotssíld og loðnu að vetri og samanstanda í raun af fleirum en einum rannsóknaleiðangri fyrir hvora tegund.

Vöktun á sjávarspendýrum og rannsóknir beinast að því að leggja mat á stofnstærð þeirra fjölmörgu hvalategunda sem finnast við landið, sem og þeirra tveggja selastofna (landselur og útselur) sem finnast og kæpa hér við land. Tilgangur rannsóknanna er öflun gagna til að geta veitt ráðgjöf um nýtingu og verndun sjávarspendýra til yfirvalda. Gögnin nýtast einnig fyrir fjölbreyttar rannsóknir á líffræði þeirra og vistkerfi hafsins.



Talningar úr lofti eru undirstaða mats á stofnstærð sela og fara þær að jafnaði fram annað hvert ár. Talningar á hvölum eru gerðar með skipum og flugvélum með 5-7 ára millibili og skipulagðar í samvinnu við aðrar þjóðir innan Norður Atlantshafs sjávarspendýraráðsins (NAMMCO). Slík talning fór fram sumarið 2024, bæði sem hluti af karfaleiðangri í Grænlandshaf í júní og makrílleiðangri í júlí sem og einn sérstakur leiðangur. Þessu til viðbótar eru sýni tekin reglubundið úr veiddum og sjálfdauðum/strönduðum sjávarspendýrum, sem nýtast sem viðbótargögn fyrir bæði veiðiráðgjöf og ýmis konar líffræði- og vistfræðirannsóknir.

Kortlagning hafsbotnsins Hafrannsóknastofnun hefur unnið að kortlagningu hafsbotnsins frá árinu 2000 og hófst sérstakt átaksverkefni árið 2017 (sjá mynd neðar) Markmið þess er að afla grunnþekkingar um hafsbotninn innan efnahagslögsögu Íslands sem mun nýtast í margþættum tilgangi og vera forsenda fyrir vísindalegri nálgun við sjálfbæra nýtingu, vernd og rannsóknir auðlinda í hafinu og bæði á og undir hafsbotninum. Verkefnið er unnið í samvinnu við Landhelgisgæslu Íslands sem sér um kortlagningu á grunnsævi, eða á innan við 100 metra dýpi. Á árunum 2000 til 2016 kortlagði Hafrannsóknastofnun ~ 12,3% af efnahagslögsögunni og tókst með þrautseigju að nýta dýran fjölgeislabúnaðinn umfram áætlaðan líftíma. Mikilvægi kortlagningarinnar var undirstrikað árið 2016 með tillögu Sigurðar Inga Jóhannessonar, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að Alþingi samþykki stórátak í kortlagningu hafsbotnsins á grundvelli 10 – 15 ára verkáætlunar.

Kortlagning hafsbotnsins

Yfirlit af kortlögðum svæðum innan efnahagslögsögu Íslands á árinu 2024.

Á árinu 2024 bættust við um 25.000 km² af samfelldum hafsbotnsmælingum innan íslenskrar efnahagslögsögu. Þar af náðu 11.300 km² til Ægishryggjar austanlands, sem er forn rekhryggur milli Íslands og Noregs og var virkur frá opnun Norður-Atlantshafsins fyrir um 65 milljónum ára þar til hann kulnaði fyrir um 26 milljónum ára. Einnig voru framkvæmdar mælingar á 12.600 km² svæði á landgrunninu við Reykjaneshrygg og landgrunnshlíð vestanlands. Með þessum viðbótum ná samfelldar fjölgeislamælingar nú yfir 53% af íslenskri efnahagslögsögu. Hafrannsóknastofnun sér um leiðréttingu og hreinsun gagna áður en þau eru birt opinberlega á vef stofnunarinnar.  Á árinu voru alls 22.000 km² af hreinsuðum gögnum gefin út. Þau samanstóðu annars vegar af nýrri útfærslu á eldri mælingum á Vestfjarðamiðum og hins vegar af nýjum gögnum frá mælingaárinu 2021 austan við Reykjaneshrygg. 

Sjókvíaeldi

Umfang sjókvíaeldis á laxi hefur farið vaxandi síðastliðinn áratug og lögð sérstök áhersla á að rannsaka og vakta viðeigandi umhverfisþætti og lífríki. Sem lið í vöktun áa er unnið að því að fjölga ám með fiskteljurum en með þeim má meta stofnstærðir villtra laxa í viðkomandi ám og mögulega greina hvort að eldislaxar gangi í ár. Áfram verður fylgst með áhrifum af laxeldinu með aukinni sýnatöku og bættum aðferðum við rannsóknir á erfðablöndun. Fylgst er með umhverfisáhrifum sjókvíaeldis á vistkerfi fjarða með rannsóknum á botndýrasamfélög, botnset, og umhverfisþætti sjávar, s.s. súrefnisstyrk. Á árinu 2024 hófst vinna við endurskoðun á burðarþolsmati, vöktunaráætlun og rannsóknaáherslum vegna sjókvíaeldis.