Fara í efni

Sjávarútvegsskóli GRÓ starfar undir merkjum UNESCO. Árlega stendur Sjávarútvegsskólinn fyrir sex mánaða rannsóknatengdu þjálfunarnámi fyrir fagfólk í sjávarútvegi frá þróunarlöndum. Þá hefur skólinn umsjón með styrkjum til nemenda, sem útskrifast hafa úr sex mánaða náminu, til að stunda framhaldsnám við íslenska háskóla.

Skólinn aðstoðar einnig fyrrum nemendur sína til að taka þátt í mikilvægum sjávarútvegsráðstefnum á alþjóðavettvangi. Auk þessa býður Sjávarútvegsskólinn upp á margvísleg stutt sérhæfð námskeið og vinnustofur í samstarfslöndum sínum, tekur þátt í þróunarverkefnum Íslands á sviði sjávarútvegs, skipuleggur kynningarferðir um íslenskan sjávarútveg fyrir erlendar sendinefndir og sinnir sérfræðiráðgjöf.

Sjávarútvegsskólinn er staðsettur í höfuðstöðvum Hafrannsóknastofnunar að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði og er starfsemin fjármögnuð með framlagi utanríkisráðuneytisins til þróunaraðstoðar í gegnum GRÓ miðstöð um þróunarsamvinnu.

Formlegir samstarfsaðilar Sjávarútvegsskólans, fyrir utan Hafrannsóknastofnun, eru Matís og Háskólinn á Akureyri og einnig hafa ýmiss fyrirtæki í sjávarútvegi stutt ötullega við bakið á starfsemi Sjávarútvegsskólans í gegnum tíðina. Sjávarútvegsskóli GRÓ starfar samkvæmt stefnu Íslands í þróunarmálum sem og áherslum UNESCO, en GRÓ miðstöðin starfar undir merkjum UNESCO sem “category 2” miðstöð. Föstu starfsfólki skólans fækkaði um eitt á seinni hluta ársins, úr 4,6 í 3,6 stöðugild.

Starfsemi Sjávarútvegsskólans 2024 var leidd af Þór Heiðari Ásgeirssyni forstöðumanni, en annað starfsfólk skólans voru Julie Ingham aðstoðarforstöðumaður, Stefán Úlfarsson sérfræðingur og Zaw Myo Win verkefnastjóri sem var í hlutastarfi allt árið. Annað starfsfólk hluta út ári voru Mary Frances Davidson, sem var í leyfi vegna starfa hjá UNESCO/IOC og Davíð Tómas Davíðsson sem starfaði frá janúar fram í maí. Mary Frances Davidson lét af störfum í ágúst eftir 12 ára gott starf hjá skólanum þar sem hún m.a. gegndi stöðu aðstoðarforstöðumans frá 2020 og forstöðumans í leyfi Þórs Heiðars.

UNESCO GRÓ Sjávarútvegsskóli á Íslandi tók til starfa 1. janúar 2020 og byggir á grunni Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem var stofnaður með þátttöku Hafrannsóknastofnunar árið 1998. Meginviðfangsefni skólans er að byggja upp færni og þekkingu meðal sérfræðinga á sviði sjávarútvegs og fiskeldis í þróunarlöndum og innan stofnana og samtaka sem þeir vinna hjá.

UNESCO GRÓ Sjávarútvegsskóli á Íslandi tók til starfa 1. janúar 2020 og byggir á grunni Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem var stofnaður með þátttöku Hafrannsóknastofnunar árið 1998.

 Meginviðfangsefni skólans er að byggja upp færni og þekkingu meðal sérfræðinga á sviði sjávarútvegs og fiskeldis í þróunarlöndum og innan stofnana og samtaka sem þeir vinna hjá.


23 manna hópur kom til Íslands á vegum Alþjóðabankans og utanríkisráðuneytisins.

Stjórnendur og starfsmenn Sjávarútvegsskólans

 

 

Þjálfunarnám og námsstyrkir

Hið sex mánaða langa hagnýta þjálfunarnám Sjávarútvegsskólans hefst síðla árs með nýjum hópi í nóvember sem útskrifast síðan sex mánuðum síðar í maí árið eftir. Á hverjum tíma er boðið upp á allt að fjórar sérlínur/sérsvið sem nemendur skiptast á eftir hlutverki og sérfræðiþekkingu þeirra í heimalandinu. Sérsviðin eru: stofnmat og veiðarfæri (ARAM), gæðastjórnun í fiskiðnaði (QMFHP), sjálfbært fiskeldi (SAq), og stefnumótun og veiðistjórnun (FPM). Nemendur eru allt fagfólk í sínu heimalandi og starfa í lykilstofnunum við stjórnun, eftirlit, og rannsóknir tengdum sjávarútvegi og fiskeldi. Allir nemendurnir eru með að lágmarki fyrstu háskólagráðu, en margir hafa lokið meistara eða doktorsnámi og hafa að lágmarki 2 ára reynslu.

Sérfræðingar frá samstarfsstofnunum á Íslandi sem og frá sjávarútveginum koma að kennslu og leiðbeiningu hjá Sjávarútvegsskólanum og einnig eru mörg sjávarútvegsfyrirtæki heimsótt til að veita nemendum innsýn inn í þá miklu þróun sem þar hefur átt sér stað. Rík áhersla er lögð á að sinna málum sem eru í brennidepli samstarfsstofnana í samstarfslöndunum ásamt því að sinna faglegum þörfum þeirra sem koma í þjálfunarnámið. Sérstakt átak var gert í að fá nemendur til að koma með gögn frá sínu heimalandi sem þeir vinna með í lokaverkefninu. Í maí 2024 útskrifuðust 25 nemendur frá 15 löndum, 11 konur og 14 karlar, og í nóvember hófu 23 nemendur frá 14 löndum, 12 konur og 11 karlar, þjálfunarnámið og munu þau útskrifast í maí 2025.

Hafrannsóknastofnunin hýsir og sér um framkvæmd Sjávarútvegsskólans samkvæmt samningi við GRÓ miðstöð um þróunarsamvinnu, en Hafrannsóknastofnunin hefur að auki umsjón með tveimur af fjórum sérlínum; stofnmatslínu og sérlínu á sviði sjálfbærs fiskeldi. Hinar sérlínurnar eru í umsjón Háskólans á Akureyri (fiskveiðistjórnun og stefnumótun) og Matís (gæðastjórnun í fiskiðnaði). Á Hafrannsóknastofnun sjá Dr. Theódór Kristjánsson, sérfræðingur á Ferskvatns- og eldissviði, og Dr. Warsha Singh, sérfræðingur á Uppsjávarsviði, um sérlínurnar sjálfbært fiskeldi og stofnmat. Sérlínan um gæðastjórnun í fiskiðnaði er stjórnað af Margeiri Gissurarsyni hjá Matís, og fiskveiðistjórnunalínan er í höndum Hreiðars Þórs Valtýssonar á Háskólanum á Akureyri. Yfirmenn sérlína Sjávarútvegsskólans mynda fagráð skólans ásamt Dr. Hrefnu Karlsdóttur frá SFS, en fagráðið hefur m.a. umsjón með faglegum efnistökum, leiðbeinendum, og lokaverkefnum nemendanna í sex mánaða þjálfunarnáminu, og eru forstöðumanni til ráðgjafar um allt starf Sjávarútvegsskólans.

Rannsóknarmiðstöð fiskeldis í Færeyjum, FIRUM, hefur komið að kennslu og leiðbeiningu á fiskeldislínunni. Það góða samstarf hélt áfram 2024 og dvaldi fiskeldishópurinn ásamt Dr. Theódóri Kristjánssyni og Þór Ásgeirssyni um 2 vikur í Færeyjum og fékk kynningu á þróun laxeldis og þeim vandamálum sem Færeyingar hafa glímt við. Samstarfið við FIRUM er jákvæð þróun á sex-mánaða þjálfunarnáminu og styrkir mjög sérlínuna um Sjálfbært fiskeldi.

Skólastyrkir fyrir fyrrum nemendur Sjávarútvegsskólans hafi verið veittir frá 2004 aðilum sem staðið hafa sig vel í sex mánaðar þjálfunarnáminu, og hafa verið samþykktir í meistara og doktorsnám hér á landi. Á árinu 2024 nutu fimm doktorsnemar stuðnings Sjávarútvegsskólans og tveir meistaranemar. Tvö þeirra útskrifuðust á árinu. Dr. Olanrewaju Femi Olagunju útskrifaðist í desember frá Háskóla Íslands og Leanne Morris varði meistararitgerð sína í október frá Háskólanum á Hólum. Engir nýir skólastyrkir voru veittir 2024 þar sem skólastyrkir sem GRÓ skólar hafa veitt undanfarin ár eru í endurskoðun.

Þátttaka Sjávarútvegsskólans á alþjóðlegum ráðstefnum

Mikilvægur liður í starfi Sjávarútvegsskólans er þátttaka í alþjóðlegum ráðstefnum þar sem fjallað er um sjávarútveg í þróunarlöndum. Stuðningur við fyrrum nemendur skólans miðar að því að gera fyrrum nemendum kleift að kynna rannsóknir sínar á alþjóðlegum ráðstefnum, enda ýtir það undir rannsóknir í sjávarútvegi og styrkir tengslanet nemenda.

Sjávarútvegsskólinn úthlutaði á árinu ferðastyrkjum til 10 nemenda sem valdir voru til að kynna rannsóknir sínar á IIFET-ráðstefnunni (International Institute of Fisheries Economics and Trade Conference) í Malasíu. Allir nemendur voru með kynningar á sínum rannsóknum. Stefán Úlfarsson tók þátt í ráðstefnunni og hitti þar styrkþegana.

Þór Heiðar Ásgeirsson flutti erindi um þjálfunarnám og árangur Sjávarútvegsskólans í tengslum við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna á annarri ARBEC ráðstefnunni (Aquatic Resources and Blue Economy Conference) sem fram fór í Kisumu í Kenía í desember.

Dr. Warsha Singh, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun og yfirmaður stofnmatslínu Sjávarútvegsskólans var boðið að flytja erindi hjá UNESCO á Alþjóðadegi kvenna um marghliða samvinnu á vandamálum tengdum loftslagsbreytingum. Dr. Warsha Singh er fyrrum nemandi Sjávarútvegsskólans frá Fiji.

 

 

 

 

 

 

Samvinna við samstarfslönd og svæðaskrifstofur

Hluti af gæðastjórnun í þjálfunarnáminu er að fylgjast með stöðu sjávarútvegs og áherslumálum hjá samstarfsaðilum. Það hjálpar til við skipulag þjálfunarnámsins og val á nemendum. Það er því nauðsynlegur hluti af starfsemi Sjávarútvegsskólans að heimsækja samstarfsaðilana reglubundið og fara yfir með þeim forsendur áframhaldandi samvinnu.

Á árinu voru fimm samstarfslönd heimsótt, og tvö svæðasamtök. Þór Ásgeirsson heimsótti í febrúar samstarfsaðila í Uganda (Makerere háskóla og svæðasamtök um fiskveiðistjórnun Viktoriu vatns (LVFO)) og Tanzaniu (Sjávarútvegsráðuneytið og Fiskirannsóknarmiðstöð Tanzaniu (TAFIRI)). Í október heimsótti Þór Sjávarútvegssamtök mið-Ameríkuríkja (OSPESCA) og Fiskimálaskrifstofu Karíbahafs (Caribbean Regional Fisheries Mechanism), en svæðasamtökin aðstoða aðildarlöndin við að þróa sinn sjávarútveg og samræma veiðar á deilistofnum. Þór heimsótti einnig Kúbu og ræddi m.a. samstarf Fiskirannsóknamiðstöðvarinnar í Havana við matvælaráðherra Kúbu (MINAL). Stefán Úlfarsson heimsótti samstarfsaðila Sjávarútvegsskólans í Indónesíu (sjávarútvegsráðuneytið) og tók viðtöl við væntanlega nemendur. Stefán heimsótti einnig á árinu samstarfsaðila í Kína, Dalian háskóla (Dalian Ocean University).

Ytra mat á starfsemi Sjávarútvegsskólans

Á árinu fór fram ytra mat á starfsemi Sjávarútvegsskólans sem og GRÓ miðstöðinni og þeim skólum sem henni tilheyra. Ytra matið var framkvæmt af GOPA ráðgjafafyrirtækinu en áður hafði sambærilegt mat farið fram af NIRAS ráðgjafafyrirtæki árið 2017. Matstímabilið var 2018-2023 og fékk Sjávarútvegsskólinn almennt lofsamlega umsögn. Fullyrt var að nemendur fengju upplýsingar um nýjustu þætti sjávarútvegs í gegnum samstarfið við færustu sérfræðinga, fyrirtæki og stofnanir. Sjávarútvegsskólinn var talinn fjalla um mikilvæga og viðeigandi þætti (relevance), gott samræmi væri á milli verkþátta skólans og stefnu og áhersluþátta samstarfsaðila (coherance), skilvirkni er góð (effectiveness) sem og hagkvæmni (efficiency). Sjálfbærni þjálfunarnámsins er einnig talinn góð svo framarlega sem nemendur fái að nýta þekkingu sína og þjálfun eftir að heim er komið. Ytri matið bendir einnig á þætti sem betur mega fara. Lagt er t.a.m. að skýrari mynd af starfsemi skólans sé sett á vefsíðu skólans, almenn efling vefsíðunnar með skýrri breytingarstjórnunarkenningu (Theory of Change) ásamt því að styrkja samskipti við hagaðila skólans (Communication strategy).

Nemendatengslanet (alumni)

Mikið átak var gert á árinu í þróun tengslanets á meðal fyrrum nemenda. Þegar samstarfslönd og stofnanir eru heimsótt þá er reynt að ná fyrrum nemendum saman til að skoða hvar þau eru stödd og upplýsa um nýja straum og stefnur. Tengslanet fyrrum nemenda er liður í að halda áfram stuðningi við nemendur eftir að heim er komið.

Þór Ásgeirsson tók þátt í nemendatengslafundi í Kampala í Úganda í febrúar þar sem saman voru mættir um 70 fyrrum nemendur allra skóla GRÓ miðstöðvarinnar til að ræða hvernig þeim hafi vegnað eftir að heim var komið og hvernig þær rannsóknir hafa nýst sem gerðar voru á meðan þau voru á Íslandi. Þór var með erindi um hugmyndafræði GRÓ og framtíðarsýn. Stefán Úlfarsson fundaði með styrkþegum á IIFET ráðstefnunni í Malasiu ásamt því að afla upplýsinga um stöðu fyrrum nemenda í Kína. Í október fundaði Þór Ásgeirsson með nemendum sem komið hafa í gegnum samstarfið við mið-Ameríkusamtökin um þróun sjávarútvegs (OSPESCA).

Nemendafundir sem þessir eru mikilvægir til að styrkja og valdefla fólkið sem tekið hefur þátt í þjálfunarnáminu á Íslandi. Þau kynnast hvort öðru og eru betur upplýst hvers konar verkefni eru unnin á hinum ólíku sviðum sjávarútvegs.

GRÓ - þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, og samstarfið við UNESCO

GRÓ- þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu var stofnuð í janúar 2020 utan um skólana fjóra sem áður höfðu fallið undir Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU). Við stofnun GRÓ miðstöðvarinnar var miðstöðin og hennar starf sett undir UNESCO sem “category 2 center”. Hlutverk GRÓ er að samhæfa starfsemi skólana og sjá um grunnfjármögnun þeirra við að stuðla að uppbyggingu mannauðs á fjórum sérsviðum; jafnréttismála, sjávarútvegsmála, jarðhitamála og landgræðslu. Við það að tengjast UNESCO opnast möguleikar á samstarfi við svæðaskrifstofur UNESCO sem eru í um 50 löndum. Einnig fær UNESCO aðgang að rúmlega 1600 sérfræðingum sem hafa útskrifast frá skólunum á Íslandi.