Heildræn skoðun á vistkerfi hafs og vatna
Vinnuhópur sem hefur það markmið að gera heildræn skoðun á vistkerfi hafs og vatna við Ísland (Working group on Integrated Assessment of Icelandic Waters, WGICE) fór formlega af stað árið 2024. Honum er meðal annars ætlað að styðja við frekari vistkerfisnálgun við stjórn fiskveiða, vera vettfangur þverfaglegra rannsókna á vistkerfi hafsins en einnig að auka við þekkingargrunn um líffræðilega fjölbreytni sem nýtist við stjórn veiða og verndunar. Vinnuhópurinn starfar undir Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) og nefndar þar sem kallast „Integrated ecosystem assessments steering group“ (IEASG). Fyrsti formlegi fundur vinnuhópsins var haldinn 20.-22. nóvember 2024. Fundinn sóttu um 23 sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar, 11 sérfræðingar annarra íslenskra stofnanna, og 6 erlendir sérfræðingar. Fluttar voru 23 kynningar um meðal annars mismunandi þætti vistkerfi hafsins við Ísland, nýtingu þeirra og hvernig aðrar sambærilegar vinnunefndir eru að nálgast þetta viðfangsefni. Verkefnisáætlun til þriggja ára sem ICES hefur samþykkt var fylgt eftir. Í henni felst að gera yfirlit og safna saman öllum gögnum sem kunna að nýtast hópnum. Þar er um að ræða tímaraðir fyrir mismunandi svæði og þætti vistkerfisins sem og þætti sem tengjast nýtingu. Þessi gögn verða svo greind með það markmið að þróa vísa (e. indicators) um breytingar í vistkerfinu. Einnig voru lögð drög að því hvernig skýrsla um vistkerfi og áhrifaþætti (e. ecosystem overview) verði uppfærð, sjá hér. Framgangsskýrsla vinnuhópsins mun liggja fyrir vorið 2025.

Kortlagning búsvæða, umhverfisbreytileika og líffræðilegri fjölbreytni á lykilsvæðum
Markmið verkefnisins er kerfisbundin kortlagning búsvæða, umhverfis og líffræðilegrar fjölbreytni með það að markmiði að undirbyggja ráðgjöf um verndarsvæði í sjó (30fyrir30).
Mælikvarðarni eru: 1) Kerfisbundið (e: systematic) stöðumat, bilgreining (e: gap analysis) og val á lykilsvæðum. 2) Samþætting fyrirliggjandi gagna. 3) Kortlagning á lykilsvæðum byggt á bilgreiningu. 4) Ráðgjöf um svæði til verndar og stýringar. Gögnin til grundvallar verkefninu koma úr: kortlagningu hafsbotnsins, kortlagning búsvæða, samþætting gagna (s.s. fjölgeislamælinga, búsvæðagreininga, umhverfismælinga og gagna um dreifingu lífvera), og svo fer fram kerfisbundin úrvinnsla og líkanakeyrsla.
Á árinu 2024 var farið í rannsóknaleiðangur þar sem gagnaöflun og kortlagning fór fram með söfnun myndefnis af mismunandi svæðum á hafsbotni landgrunnsins suður og suðaustur af landinu. Tekin voru alls 74 snið í leiðangrinum. Virk þátttaka var í stýrihópi matvælaráðuneytisins um vernd í hafi sem sendi á árinu frá sér skýrsluna: Verndarsvæði í hafi - Lokaskýrsla stýrihóps um verndun hafsins.
Hafin var samvinna við Evrópuverkefnið BioProtect sem hófst um mitt ár 2024. Í verkefninu verður lögð áhersla á kerfisbundið verndarskipulag og samþættanlega ákvörðunartöku. Vinna að kortagrunni hófst á árinu. Námskeið í greiningum og notkun greiningaforritsins var haldið fyrir starfsfólk á starfstöð Hafrannsóknastofnunar á Ísafirði. Þar mun greiningavinna fara að mestu fram og fjölgun í starfsliði við greiningar átti sér stað í lok árs 2024.
Líffræðileg fjölbreytni innan lykiltegunda við vernd og veiðistjórnun
Markmið hér er að bæta ráðgjöf um vernd og veiðistjórn þorskstofnsins og auka gæði stofnmats með tilliti til stofngerðar og tengsla við Grænland. Breytileiki innan tegunda getur verið margvíslegur en hér verður áhersla á lykilmælikvarða sem gilda um margar tegundir fiska, þ.e. gönguhegðun og til grundvallar liggur erfðabreytileiki. Mælikvarðar verkefnisins eru: 1) upplýsingar um erfðabreytileika þorskstofnsins við Ísland byggt á bestu mögulegu aðferðum, 2) greining á fari, stofngerð og uppruna þorsk sem gengur inn í grænlenska lögsögu, 3) greining á álagi á uppeldisstöðvum þorskseiða með tilliti til breytileika innan tegundar, 4) bætt veiðiráðgjöf með því að taka tillit til breytileika innan tegunda.

Verkefnið var áður sérstakur liður á fjárlögum, en var tekið út árið 2024. Hinsvegar fengust tveir styrkir úr Verkefnasjóði Sjávarútvegsins árið 2024, annars vegar til að skoða afföll og uppruna þorskungviðis (maí, áhersla á mælikvarða 3) og hins vegar að skoða göngur þorsks (nóvember, áhersla á mælikvarða 2). Markmiðið með þessum rannsóknum var að vinna úr þeim sýnum sem safnað hafði verið á árunum 2022-2023.
Erfðagreiningum á hrygningarþorski er lokið og verið er að leggja lokahönd á greiningu þeirra gagna (viðmið 2024). Erfðagreining á þorskungviði mun fara fram árið 2025. Greiningar voru ekki gerðar árið 2024 þar sem nauðsynlegt er að niðurstöður úr erfðagreiningu úr hrygningarfisknum liggi fyrir. Allt genamengið var greint hjá hrygningarfisknum en ekki er talið nauðsynlegt að greina allt erfðamengi þorskungviðisins. Því verða niðurstöður úr erfðagreiningu hrygningarfisksins notaðar til að taka ákvörðun um hvers konar greining verði notuð fyrir ungviðið. Viðamiklar merkingar áttu sér stað á þorski á árunum 2019-2023 til að skoða göngur þorsks við Ísland og tengsl við Grænland. Á árunum 2022 og 2023 voru 781 þorskur merktur með rafeindamerkjum sem skrá hitastig og dýpi þar sem fiskurinn heldur sig. Það tekur tíma að endurheimta merkin en nú er búið að endurheimta 70 rafeindamerki. Þar sem styrkurinn fyrir verkefnið fékkst í lok árs 2024 var framvinda ársins 2024 hæg. Búið er að ráða starfsmann tímabundið til þess að útvíkka sjávarfallalíkanið og hanna notendaviðmót sem mun nýtast til að finna líklegar staðsetningar út frá sjávarföllum sem finnast í rafeindamerkjum.
Gögn og miðlun - umhverfi sjávar og ferskvatns
Til að upplýsa um aðgerðir tengdar loftslagsmálum og súrnun sjávar og til að bæta rannsóknir á mögulegum afleiðingum breytinganna, er mikilvægt að til séu aðgengilegar upplýsingar um umhverfi sjávar. Áformað var að búa til afurð, t.d. vefsíðu á vef Hafrannsóknastofnunnar, þar sem hægt væri að nálgast allar tiltækar upplýsingar um umhverfi sjávar. Upplýsingunum er ætlað að þjóna vísindastarfi en einnig öðrum aðilum. Vegna álags í ýmsum verkefnum stofnunarinnar á árinu 2024 var ekki unnið markvisst að þessu áhersluverkefni en áformað var að auglýsa eftir sérfræðingi í hafvísindum og gögnum fyrir árið 2025 sem ætlað var að styðja verkefni þar sem unnið er að bættu aðgengi gagna og gagnaafurða.
Efling vöktunarrannsókna - á nytjategundum sem liðið hafa fyrir samdrátt
Markmið þessa áhersluverkefnis er að endurmeta og hefja að nýju nauðsynlegar vaktanir á nytjastofnum sem m.a. hafa liðið fyrir aðhaldskröfur á Hafrannsóknastofnunina undanfarin ár. Hér er horft til 14 mismunandi tegunda sem hefur verið sinnt í mismunandi leiðöngrum og með fjölbreyttum hætti. Fyrir flestar þessar tegundir liggja fyrir tölulegar upplýsingar um umfang vöktunar og afleiðing samdráttar.
Rannsóknir og vöktun á sjávarhryggleysingjum hefur farið minnkandi undanfarin ár vegna bágrar stöðu flestra stofna og aukin aðhalds í rekstri. Vöktun á sæbjúganu brimbút hófst þó eftir nokkuð umtalsverðar veiðar og síðustu fimm ár hefur verið farið í stofnmælingarleiðangur í tengslum við vöktun ástands sjávar í ágúst. Þar eru vöktuð sex af átta ráðgjafarsvæðum sæbjúgna. Dregið var úr vöktun humarstofnsins samhliða langvarandi nýliðunarbresti og veiðibanni. Sleppt var neðansjávarmyndavélaleiðangri árin 2022 og 2024, en farið var þau ár í könnun með veiðiskipum. Stofnmælingaleiðangrar rækju hafa verið farnir árlega í tengslum við umhverfisvöktun sjókvíaeldis í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði. Aðrir innfjarðarækjustofnar út af Norðurlandi hafa ekki verið kannaðir undanfarin ár (síðast farið árið 2020 í Skjálfanda), en rækjan þar hefur verið í lágmarki og fiskstofnar sterkir. Farið hefur verið annað hvort ár í Snæfellsnesrækju og úthafsrækjuleiðangra, en rækja við Eldey var síðast könnuð árið 2020. Samfara tilraunaveiðum fóru fram myndavélastofnmælingaleiðangrar á hörpudiski í Breiðafirði á árunum 2014 – 2019. Farið var aftur í leiðangur árið 2024 í Breiðafjörð.

Farið var í stofnmælingarleiðangur í úthafskarfa - efri og neðri stofna síðast árin 2021 og aftur á árinu 2024 í tengslum við hvalatalningar. Næsti leiðangur er áætlaður árið 2027.
Til stendur að gera sviðmyndagreiningu á þörfinni á að vakta á kerfisbundinn hátt þá stofna sem minnst hefur verið á hér ofar, auk uppsjávartegnunda (síld, loðnu og makríll), grjótkrabba, flatfiska, ígulkera, þangs og þara, beitukóng, kúfskelja og makríls.
Áhættumat erfðablöndunar
Vegna þeirrar miklu uppbyggingar sem verið hefur í laxeldi í sjókvíum hér við land hafa rannsóknir á áhrifum þess verið auknar. Unnið er því að bæta undirstöður fyrir áhættumat erfðablöndunar. Í því felst m.a. greining á gögnum úr þeim strokatburðum sem orðið hafa þegar laxar hafa strokið úr eldiskvíum hér við landi. Þar hafa fengist upplýsingar um þann mun sem er á fjölda laxa sem sækja í ár eftir því hvort um er að ræða snemmbúið strok þ.e. þegar fiskar strjúka stuttu eftir útsetningu eða síðbúið strok þegar stærri fiskar strjúka. Einnig áhrif af völdum kynþroska sem er veigamikill þáttur varðandi það hvort eldisfiskar leiti í ár til hrygningar. Þá hefur verið lögð áhersla á að bæta líkan fyrir áhættumatið með því að reikna slembni fyrir atburði og meta óvissu í útreikningum.
Erfðafræði – rannsóknir á erfðablöndun
Eftir strokatburð sem varð síðsumars 2023, þegar laxar struku úr kví í Patreksfirði og leituðu í fjölmargar ár, var lögð áhersla á að auka rannsóknir í erfðafræði til að fá bæði betri grunn fyrir skyldleika villtra stofna og til að greina hvort og hversu mikil erfðablöndun hafi átt sér stað. Auk reglubundinnar sýnatöku vegna áhættumats erfðablöndunar var farið í átak haustið 2024 til að veiða vorgömul seiði úr ám. Áhersla var lögð á það svæði þar sem vart hafði orðið við eldislaxa. Blendingar eldislaxa hafa greinst í fimm af þeim ám sem farið var í, þótt ekki hafi náðst að ljúka við söfnun sýna áður en vetrarástand varð í ánum. Áfram verður fylgst með áhrifum af laxeldinu með aukinni sýntöku og bættum aðferðum.
Árvakar
Sem lið í vöktun áa er unnið að því að fjölga ám með fiskteljurum en með þeim má meta stofnstærðir villtra laxa í viðkomandi ám og mögulega greina hvort að eldislaxar gangi í ár. Á árinu 2024 var búnaður í Krossá á Skarðsströnd endurnýjaður. Taka má fram að aðstæður til að koma fyrir teljarabúnaði í ám er ólíkur og fer eftir staðháttum og vatnsmagni. Verið er að gera tilraunir með að nýta gervigreind til að aðgreina villta laxa og eldislaxa af myndum úr fiskteljurum.

Styrking villtra laxastofna
Stærð laxastofna hefur mikil áhrif á möguleg áhrif af innblöndun eldislaxa. Þannig eru litlir stofnar væntanlega viðkvæmari fyrir en stórir stofnar. Því skiptir máli að veiðinýting sé í samræmi við veiðiþol stofna og sé stunduð á sjálfbæran hátt en líkur eru til að litlir stofnar séu viðkvæmari fyrir veiðinýtingu. Til að auka þekkingu á stærð hrygningarstofna laxa og til að hafa möguleika á að fjarlægja eldislaxa úr ám voru fengnir norskir sérfræðingar til að þjálfa starfsmenn Hafrannsóknastofnunar í rekköfun í ám. Með betra mati á stofnstærðum og veiðiþoli stofna má bæta forsendur veiðinýtingar sem og að vinna gegn því að eldislaxar hrygni í ám ekki síst í nágrenni eldissvæða.
Hnúðlax
Fjöldi og útbreiðsla hnúðlaxa hefur verið að aukast í ám hér á landi líkt og er annarsstaðar við Norður Atlantshaf. Um er að ræða framandi stofn sem upprunninn er úr Kyrrahafi og var fluttur og sleppt í ár við Hvítahaf og á Kólaskaga. Ekki er enn þekkt hvaða áhrif hnúðlaxar koma til með að hafa í ám hér á landi eða hvort ástæða er til að stemma stigu við fjölgun hans með aðgerðum. Með auglýsingu hefur veiðifélögum verið heimiluð veiði á hnúðlaxi í ám en sækja þarf um leyfi Fiskistofu fyrir slíkum veiðum. Unnið er að því að auka þekkingu á hnúðlaxi og áhrifum hans m.a. í samstarfi við sérfræðinga í Englandi og Noregi. Þar sem stofn hnúðlaxa er stærri á oddaári en jöfnu ári hefur það áhrif á söfnun gagna um áhrif.
Nýjar nytjategundir við Ísland
Hafrannsóknastofnun hefur gegnum árin komið að margvíslegum verkefnum með það sameiginlega markmið að rannsaka möguleika og styðja við nýtingu nýrra tegunda í hafinu, sem er yfirmarkmið þessa áhersluverkefnis. Tvö slík verkefni sem beindust að miðsjávartegundum, og voru styrkt af Evrópusambandinu, lauk á árinu 2024. Þetta voru verkefnin SUMMER og MEESO. Annað verkefni sem er leitt af Rauðátan ehf. með það að markmiði að rannsaka veiðimöguleika á rauðátu, var sinnt á árinu 2024. Verkefnið er styrkt af m.a. Tækniþróunarsjóði Rannís og Matvælasjóði. Hafrannsóknastofnun er samstarfsaðili í verkefninu og var RS Bjarni Sæmundsson leigður til tilraunaveiða sumarið 2024. Farið var til veiða austur og suður af Vestmannaeyjum í tvo daga í maí og þrjá daga í júní og var rauðátan veidd í rauðátutroll. Rannsóknin fólst meðal annars í að meta breytileika í tíma og rúmi á þéttleika og þroskastig rauðátu, veiðni hennar, magni meðafla og á vinnslueiginleikum hennar.

Rauðáta í háfi í rannsóknaleiðangri á Bjarna Sæmundsson, vorið 2024
Umhverfisvöktun vegna sjókvíaeldis og burðarþolsmat
Á árinu 2024 var umfang umhverfisvöktunar og rannsókna aukið áfram í samræmi við auknar fjárveitingar í verkefnin og voru tveir sérhæfðir starfsmenn ráðnir til starfa. Áherslan hefur verið að framkvæma mælingar í fjörðum þar sem eldi er enn lítið að umfangi eða ekki hafið, en einnig er sérstök áhersla á að fylgjast með þeim fjörðum þar sem eldi er þegar umfangsmikið, eins og í Arnarfirði. Haustið 2024 var farið í tvo leiðangra, í Arnarfjörð og Dýrafjörð á skipinu Bjarna Sæmundssyni í september og á leigubáti í Reyðarfjörð í október.

Í verkefni um burðarþolsmat er m.a. unnið að haffræðilegri líkanagerð en slík líkön geta m.a. sagt til um rek lirfa laxa- og fiskilúsa á milli kvíasvæða, rek smitefna og dreifingu úrgangs. Þótt ætlunin hafi verið að efla líkanagerð á árinu með því að fjölga starfsmönnum úr einum í tvo, fór það svo að starfsmaður lét af störfum og hægt gekk að ráða til starfa tvo starfsmenn með viðeigandi þekkingu. Þó var unnið að því að auka samstarf við erlenda aðila (í Færeyjum og Noregi) til að efla líkanagerð hérlendis til styttri og lengri tíma litið og koma tveir starfsmenn til starfa árið 2025.
Í lok árs hófst vinna við heildstæða endurskipulagningu verkefnanna Burðarþolsmat fjarða og Umhverfisáhrifa sjókvíaeldis en er áætlað að vinnunni ljúki síðari hluta 2025 eða í upphafi 2026.. Er þeirri endurskoðun ætlað að upplýsa um framtíðarþörf verkefnanna þegar kemur að mannauði, innviðum, skipulagi verkefna, framkvæmd þeirra og afurðum.