Fara í efni


Rannsóknarsamstarf

Rannsóknarverkefni styrkt af Evrópusambandinu

Á undanförnum árum hefur Hafrannsóknastofnun aukið alþjóðlegt rannsóknarsamstarf sitt með þátttöku í fjölmörgum styrkumsóknum til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Sú nálgun stuðlaði að breytingum innan stofnunarinnar með stofnun á starfi sérstaks rannsóknastjóra sem heldur utan yfir styrkjamál og fleira.

Síðastliðinn þrjú ár hefur Hafrannsóknastofnun fengið styrki frá Evrópusambandinu sem nemur um 8,8 milljón evra fyrir fjölbreytt rannsóknaverkefni. Hér að neðan eru stutt ágrip yfir verkefni sem voru í gangi árið 2024:

BioProtect: Verkefnið stefnir að aukinni vernd og endurreisn vistkerfa í hafi og á strandsvæðum, frá athöfnum manna og til að auka möguleika vistkerfanna á að þola umhverfisbreytingar. BioProtect mun þróa verkfæri til að stýra hafrænnni skipulagningu friðaðra svæða og til að aðstoða við val á verndunarsvæðum, sjá nánar hér.

B-USEFUL: Þetta verkefni mun þróa notendamiðuð verkfæri og lausnir til að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika sjávar og ná þeim stefnumarkmiðum sem sett voru fram í Græna Sáttmála ESB og verkefninu um stefnumótun líffræðilegrar fjölbreytni (biodiversity Strategy) 2030, sjá nánar hér. 

CIBBRINA: Markmið verkefnisins er að koma á samvinnu þvert á landamæri og milli allra hagaðila í sjávarútvegi um svæðisbundnar vöktunaráætlanir. Með aukinni vöktun má bæta áreiðanleika meðaflamats og þróa, prófa og innleiða árangursríkar mótvægisaðgerðir til að draga úr meðafla sjávarspendýra, fugla, skjaldbaka og fiska sem ekki eru veiddir til manneldis,  sjá nánar hér.

INFINIFISH: Verkefnið snýr að því að búa til praktístkar nýjungar í virðiskeðju fiskveiða,fráveiðum, og vinnslu til opinberrar stýringar og stjórnunar auðlinda, sjá nánar hér. 

 

MARINE BEACON: Þetta verkefni miðar að því að vakta og draga úr meðafla á óæskilegum afla svo sem tegundum í útrýmingarhættu og friðuðum tegundum á norðaustur- og úthafssvæði Atlantshafsins, sjá nánar hér.

 

MARINE GUARDIAN: Þetta verkefni miðar að því að þróa og hanna nýjar lausnir og tækni til að draga úr neikvæðum áhrifum fiskveiða á vistkerfi hafsins, á sama tíma og það stefnir að því að hámarka afrakstur iðnaðarins og tryggja langtíma sjálfbærni í evrópskum sjávarútvegi, sjá nánar hér. 

MARINE SABRES: Þetta verkefni er samstarfsverkefni 21 rannsóknaraðila með það markmið að finna leiðir til að endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika sjávar og styðja við sjálfbært blátt hagkerfi með aukningu á vistkerfisbundinni stjórnun veiða í Evrópu, sjá nánar hér.

MISSION ATLANTIC: Sjálfbær stjórnun auðlinda hafsins byggir á getu til að meta og spá fyrir um áhrifaþætti breytinga og áhrif þeirra á vistkerfi hafsins. Þetta mat er háð óvissu og tengsl ólíkra áhrifaþátta geta verið flókin. Til að takast á við þessar áskoranir mun MISSION ATLANTIC styðja stjórnendur náttúruauðlinda og stefnumótendur nýtingaráætlana í að nálgast jafnvægi í þörf fyrir umhverfisvernd og sjálfbæra þróun, byggt á nýjum vísindalegum upplýsingum. Þannig stuðlar verkefnið að jákvæðri þróun auðlindanýtingar í Atlantshafi, sjá nánar hér. 

POLARIN: Þetta verkefni mun skila fullfjármögnuðum sýndar- og fjaraðgangi að 64 innviðum heimskautarannsókna og stuðla þannig að þverfaglegum rannsóknum á vísindalegu áskorunum á heimskautasvæðunum tveimur. Til að ná þessu markmiði hefur þegar verið stofnað net samstarfsstofnana í Evrópu og víðar (t.d. í Kanada, Bandaríkjunum, Bretlandi, Úkraínu og Chile), sjá nánar hér.  

REDRESS: Þetta verkefni er lykilþáttur í stefnu ESB að koma vistkerfum hafsins í samt lag, sérstaklega þeirra á djúpsjó. REDRESS mun veita lausnir til að forgangsraða komandi endurbyggingaraðgerðum, víkka endurbyggingu djúpsjávar svo hún nái til áður vanræktra búsvæðisgerða og sýna fram á hagkvæmni, möguleika og virði þess að endurheimta djúpsjávarvistkerfin, sjá nánar hér.

RESOLVE: Markmiðið er að meta mögulegar mótvægis  aðgerðir þegar kemur að náttúrumiðuðum lausnum (Nature-Based Solutions) til að sporna við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni vegna loftlagsbreytinga. Metnar verða breytingar á tegundasamsetningu og einkennum vistkerfa innan og utan verndarsvæða (MPAs, OECMs og EBSAs). Skoðaðir verða kostir og gallar náttúrumiðaðra lausna út frá þeirri vistkerfisþjónustu er svæðin veita og framlagi þeirra við að milda loftlagsbreytingar (t.d. í gegnumkolefnisbindingar) og kvikri skipulagningu verndarsvæða, sjá nánar hér. 

Þátttaka Hafrannsóknastofnunar í verkefnum sem hafa verið styrkt af Evrópusambandinu hefur skilað sér í birtingum á mörgum vísindagreinum, og nemur um 20% af greinum sem hafa verið birtar á undanförnum árum og kostuð af rannsóknastyrkjum:

 

Annað alþjóðlegt samstarf

Alþjóðlegt samstarf sem ekki tengist sértækum rannsóknaverkefnum er einnig umfangsmikið. Tengist það meðal annars vöktun á nytjastofnum og vistkerfum hafs og vatna og ráðgjöf um nýtingu. Þetta samstarf getur verið í formi árlegra og viðamikilla alþjóðlegra rannsóknleiðangra, vinnu í vinnunefndum eða hópum sem og þátttöku í ráðstefnum og fundum. Helsti samstarfsvettvangurinn er Alþjóðahafrannsóknarráðið ( ICES). Þannig voru starfsmenn Hafrannsóknastofnunar þátttakendur í 50 af alls um 140 vinnunefndum ICES árið 2024. Aðrar íslenskar stofnanir voru með fólk í 19 ICES vinnunefndum. Fjöldi starfsmanna Hafrannsóknastofnunarinnar í hverjum vinnuhóp var í flestum tilvikum einn til tveir og fleiri í sumum hópum. Kynjahlutfallið 55% karlar á móti 45% konur. Samstarf á sér einnig stað innan t.d. Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins (NAMMCO), Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC), Norðuraustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins (NEAFC), Norðurskautsráðsins (Arctic Council) og Laxaverndunarstofnunarinnar (NASCO).

Ýmis önnur, oft smærri, alþjóðleg rannsóknaverkefni, voru einnig í gangi árið 2024. Þau eru gjarnan styrkt af t.d. Rannís og norrænum rannsóknasjóðum.

Innlent rannsóknarsamstarf

Hafrannsóknastofnun á í samstarfi við flestar rannsóknastofnanir á Íslandi og ýmsar aðrar stofnanir. Má þar nefna Háskóla Íslands, Háskóla Akureyrar, Háskólasetur Vestfjarða, Matís, Fiskistofu, MAST, Umhverfisstofnun, Veðurstofu Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrufræðistofur kringum landið.

Samstarfið milli Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunar fellst meðal annars í meistaranámi í fiskifræði og skyldum greinum. Einn starfsmaður sinnir skipulagningu og kennslu við HÍ en auk hans kemur fjöldi sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar að kennslu. Starfsfólk stofnunarinnar kemur einnig að ýmsu öðru háskólanámi, s.s. með stundakennslu og sem leiðbeinendur nemenda í meistara- og doktorsnámi.

Eins og rakið hefur verið að ofan er vísindafólk Hafrannsóknastofnunar í samstarfi við margar erlendar og innlendar rannsóknastofnanir og háskóla. Það endurspeglast vel í meðhöfundum að birtum vísindagreinum, en þessi mynd sýnir hvaðan meðhöfundar koma yfir helstu 25 stofnanir: