Ársskýrsla Hafrannsóknastofnunar
2024
2024
Starfsemi Hafrannsóknastofnunar árið 2024 var, líkt og fyrr, að stórum hluta helguð vöktun umhverfisþátta og auðlinda hafs og vatna. Eru þeim verkefnum gerð góð skil í þessari skýrslu ásamt þeim áhersluverkefnum sem stofnunin hefur sinnt.
Eins og fram hefur komið í fyrri ársskýrslum stofnunarinnar hefur hagræðingarkrafa stjórnvalda mörg undanfarin ár leitt til þess að dregið hefur úr vöktun lifandi auðlinda hafs og vatna á undanförnum árum. Einnig hefur verið dregið úr vöktun umhverfisþátta og úthaldi rannsóknaskipa stofnunarinnar.
Nú má segja að viðsnúningur hafi orðið og við sjáum fram á auknar rannsóknir og vöktun á komandi árum bæði vegna aukins skilnings stjórnvalda á mikilvægi rannsókna á lífríki hafs og vatna sem og aukins fjármagns frá stjórnvöldum. Jafnframt hefur verið umtalsverð fjölgun verkefna sem styrkt eru af erlendum samkeppnissjóðum. Styðja þau verkefni við og efla áhersluverkefni stofnunar og stjórnvalda m.a. um rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika og búsvæðarannsóknum.

Í maí 2022 setti þáverandi matvælaráðherra af stað verkefnið Auðlindin okkar og skipaði starfshópa til að greina tækifæri og áskoranir í sjávarútvegi og tengdum greinum. Starfshópurinn skilaði tillögum til ráðherra um framtíðarsýn varðandi nýtingu nytjastofna sjávar og ýmis verkefni sem þyrfti að styrkja svo sú sýn gæti orðið að veruleika. Þá var einnig unnin greining á umgjörð lagareldis og tillögur um hvernig bæta mætti umgjörð um þá mikilvægu atvinnugrein. Í framhaldi framkominna tillagna voru stigin jákvæð skref til eflingar Hafrannsóknastofnunar því í fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2024-2028 kom fram áætlun um aukna sókn í hafrannsóknum og eflingu rannsókna og stjórnsýslu fiskeldis. Þær áherslur endurspeglast í fjárlögum ársins 2023 til stofnunarinnar fyrir árið 2024 og áætluninni jafnframt fylgt í fjárlögum ársins 2024 fyrir árið 2025.
Hafrannsóknastofnun setti fram áætlanir um verkefni sem styðja við markmið stjórnvalda og byrjað er að vinna í samræmi við þá áætlun. Í fiskeldi eru helstu áhersluatriðin m.a. efling vinnu við burðarþolsmat, umhverfisáhrif sjókvíaeldis, áhættumat auk eflingar rannsókna á viltum laxastofnum. Áhersluatriðin varðandi eflingu hafrannsókna eru af ýmsum toga s.s. heildræn skoðun á vistkefi hafs og vatna, kerfisbundin kortlagning búsvæða, líffræðileg fjölbreytni, bætt ráðgjöf, áhrif loftslagsbreytinga, bætt líkanagerð, rannsóknir á mögulegum nytastofnum, efling vöktunarrannsókna auk þess að tryggja gagnaöryggi og skipulagða geymslu gagna.
Mörg þessara verkefna hófust á árinu, m.a. með gerð verkáætlana og eflingu mannauðs. Miðað við fjármálaáætlun er gert ráð fyrir enn frekari styrkingu þessara málaflokka á næstu árum og mun það styrkja Hafrannsóknastofnun í að vinna þau fjölmörgu mikilvægu verkefni sem stofnuninni eru gert að sinna og stuðla að sjálfbærri nýtingu okkar auðlinda.
Hver vinnustaður væri ekkert án góðs mannauðs og því mikilvægt að vinnuaðstaða og starfsánægja sé í fyrirrúmi. Starfsfólk stofnunarinnar vinnur mikilvæg störf í þágu þjóðarinnar og mikilvægt að hlúa vel að starfsfólki til að gera þeim kleift að vinna sína vinnu í sem bestu vinnuumhverfi. Eins og sjá má í skýrslu þessari hafa stjórnendur og starfsfólk einsett sér að gera stofnunina að enn betri vinnustað og hefur verið unnið að því með ýmsum aðgerðum sem fjallað er um í mannauðskafla skýrslunnar.


Hafrannsóknastofnun tekur þátt í mörgum samstarfsverkefnum með öðrum rannsóknastofnunum og háskólum og hefur veruleg fjölgun verið á slíkum verkefnum á síðustu árum. Þannig hefur fjármögnun margra verkefni verið úr samkeppnissjóðum en einnig hefur ýmsum þjónusturannsóknum og mælingum fjölgað.
Árangur starfsmanna stofnunarinnar við að sækja rannsóknastyrki til Evrópusambandsins hefur verið framúrskarandi. Þessum verkefnum eru gerð skil í þessari ársskýrslu og samantektin sýnir vel hversu umfangsmikið samstarfsnet starfsfólk stofnunarinnar hefur byggt upp. Þannig aukast gæði rannsóknastarfsins, ný þekking og færni byggist upp og jafnframt auðveldar samstarfið okkur að finna svör við áleitnum rannsóknaspurningum, sem er vart á færi einnar stofnunar að sinna.
Smíði nýs rannsóknaskips, Þórunnar Þórðardóttur í stað Bjarna Sæmundsonar, gekk vel á árinu og að mestu í samræmi við áætlanir. Fyrirhugað var að skipið yrði afhent í nóvember 2024 en á haustmánuðum varð ljóst að það myndi ekki ganga eftir og að raunhæfara væri að horfa til janúar/febrúar 2025 hvað það varðar.
Þórunn Þórðardóttir HF 300 mun gegna lykilhlutverki í hafrannsóknum á komandi árum og áratugum og mun m.a. sinna mörgum þeim áhersluverkefnum sem sinna þarf á komandi árum, í samræmi við áherslur stofnunarinnar sem og stjórnvalda. Þar má nefna rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika, kortlagningu búsvæða, vöktun umhverfisáhrifa vegna sjókvíaeldis og fleiri mikilvæg verkefni.


Hafnarfirði, 31. mars 2024

Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar