Fara í efni


Hafrannsóknastofnun er stjórnsýslunni til ráðgjafar á sínu verksviði og veitir ráðgjöf um sjálfbæra nýtingu auðlinda í sjó og ferskvatni

Öflug vöktun og rannsóknir á lífríki sjávar, vatna og áa eru forsenda sjálfbærrar nýtingar auðlindanna og auka þekkingu á umhverfinu og þeim breytingum sem eru að eiga sér stað. Hafrannsóknastofnun sinnir margvíslegum grunnrannsóknum sem skipta má í tvo meginflokka, vöktunarrannsóknir og tímabundin rannsóknaverkefni.

Vöktunarverkefni


Vöktun og reglubundnar rannsóknir  

Vöktun á stofnum botnsjávarfiska og hryggleysingja er stór þáttur í starfi Hafrannsóknastofnunar. Margir helstu nytjastofnar Íslendinga falla undir þessi vöktunarverkefni, svo sem þorskur, ýsa, karfi og rækja. Stofnmælingaleiðangrar á botnfiskum og hryggleysingjum eru flestir farnir árlega en í þeim eru ýmist tekin sýni með botnvörpu eða netum á staðlaðan hátt. Hér má helst nefna stofnmælingu botnfiska að vori og hausti, en þetta eru umfangsmiklir leiðangrar sem ná yfir allt landgrunnið. Einnig er hrygningarstofn þorsks metinn árvisst og lykilstofnar hryggleysingja, s.s. rækju, sæbjúgna og humars, vaktaðir með reglulegum mælingum á veiðislóð. Á undanförnum árum hefur jafnframt aukist notkun myndavélatækni til stofnmælinga og í dag er stofnmæling humars og hörpudisks framkvæmd með neðansjávarmyndavélum. Helsta markmið stofnmælingaleiðangra er að fylgjast með breytingum á fjölda og aldurssamsetningu nytjastofna sem nýtist svo í ráðgjöf til stjórnvalda. Í stofnmælingaleiðöngrum er jafnframt safnað gögnum um marga aðra þætti, eins og fæðu fiska, ástand þeirra og á síðari árum hafa botndýr verið skráð og þannig fengist mikilvægar upplýsingar um útbreiðslu annara dýra en helstu nytjastofna. Þá gefa reglulegir stofnmælingaleiðangrar tækifæri til að fylgjast með breytingum í dreifingu stofna og nýjum tegundum sem kunna að berast til landsins. 

Vöktun á ástandi sjávar er meðal umfangsmeiri vöktunarverkefna á stofnuninni. Eitt af markmiðum þess er að veita upplýsingar um breytileika í umhverfi sjávar í tíma og rúmi yfir bæði lengri og styttri tímabil. Árið 2023 var hitastig og selta mæld á föstum stöðvum umhverfis Ísland í þremur leiðöngrum auk þess sem aðrar umhverfisbreytur voru mældar, s.s. magn koldíoxíðs í sjó (súrnun sjávar) og styrkur næringarefna. Niðurstöður þessarar vöktunar eru ekki aðeins mikilvægar fyrir hinar ýmsu umhverfis- og vistfræðirannsóknir í kringum Ísland heldur einnig til að auka skilning og þekkingu á breytileika og langtímabreytingum í heimshöfunum, t.d. á hitastigi og sýrustigi sjávar.

Svifþörungar og frumframleiðni þeirra eru undirstaða vistkerfa sjávar. Árleg vöktun á svifþörungum fer fram að vori með annarri vöktun á umhverfisþáttum en einnig eru notaðar fjarkönnunarupplýsingar sem safnað er með gervitunglum til að meta frumframleiðni og árlegan framgang hennar. Markmiðið er að fylgjast með gróðurfari umhverfis landið. Í samvinnu við Matvælastofnun, skelfiskveiðimenn og kræklingaræktendur vaktar Hafrannsóknastofnun nokkur svæði í kringum landið vegna eitraðra svifþörunga. Niðurstöður vöktunarinnar eru birtar á vef Matvælastofnunar. 

Dýrasvif gegnir mikilvægu hlutverki í vistkerfi hafanna sem hlekkur í fæðukeðjunni milli svifþörunga og dýrasvifsæta, svo sem uppsjávarfiska, fiskungviðis og skíðishvala. Rannsóknir á dýrasvifi miða að því að auka skilning á líffræði mismunandi tegunda auk þess sem unnið er að því að rannsaka breytileika í þéttleika og tegundasamsetningu milli hafsvæða og ára með margskonar aðferðum. Þá hefur verið unnið að því á undanförnum árum að þróa frekari leiðir til að nota bergmálsmælingar til mælinga á stórátu (aðallega ljósátu) og eru þær mælingar orðnar að föstum þætti í vorleiðangri sem farinn er umhverfis landið. Dýrasvifsrannsóknir eru mikilvægar með tilliti til aukins skilnings á vistfræði hafsins en einnig vegna vaxandi áhuga sjávarútvegsins á beinni nýtingu dýrasvifs. 

Vöktunarrannsóknir á uppsjávarfiskistofnum eru nokkuð umfangsmiklar á stofnuninni. Tilgangur þeirra er fyrst og fremst að meta stofnstærð og veiðiþoli í tengslum við veiðiráðgjöf á loðnu, sumargotssíld, norsk-íslenskri vorgotssíld, kolmunna, makríl og hrognkelsi. Markmið um sjálfbæra nýtingu krefst auk þess fjölbreyttra rannsókna á líffræði, útbreiðslu, göngum, og vistfræðilegum tengslum þessara fiskistofna, þar með talið tengslum þeirra við umhverfi, dýrasvif og spendýr. Þessar rannsóknir krefjast mikils úthalds rannsóknaskipa yfir víðáttumikil svæði innan og utan íslensku efnahagslögsögunnar. Fimm umfangsmiklir rannsóknaleiðangrar voru farnir á árinu 2023 með að meginmarkmiði að mæla stofnstærð uppsjávartegunda. Þrír af þeim, fyrir norsk-íslenska síld, makríl og loðnu að hausti, eru alþjóðlegir og eru skipulagðir innan vinnunefnda Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), sem og stofnmatsvinnan. Þá voru tveir sem eru skipulagðir af Hafrannsóknastofnun, fyrir sumargotssíld og loðnu að vetri og samanstanda í raun af fleirum en einum rannsóknaleiðangri fyrir hvora tegund.

Vöktun á sjávarspendýrum og rannsóknir beinast að því að leggja mat á stofnstærð þeirra fjölmörgu hvalategunda sem finnast við landið, sem og þeirra tveggja selastofna (landselur og útselur) sem finnast og kæpa hér við land.
Tilgangur rannsóknanna er öflun gagna til að geta veitt ráðgjöf um nýtingu og verndun sjávarspendýra til yfirvalda. Gögnin nýtast einnig fyrir fjölbreyttar á rannsóknir á vistkerfi hafsins.
Talningar úr lofti eru undirstaða mats á stofnstærð sela og fara þær að jafnaði fram annað hvert ár. Talningar á hvölum eru gerðar með skipum og flugvélum með 5-7 ára millibili og skipulagðar í samvinnu við aðrar þjóðir innan NAMMCO. Þessu til viðbótar eru sýni tekin reglubundið úr veiddum og sjálfdauðum/strönduðum sjávarspendýrum, sem nýtast sem viðbótargögn fyrir bæði veiðiráðgjöf og ýmis konar líffræði- og vistfræðirannsóknir.

Viðfangsefni vöktunar í ám og vötnum er að talsverðu leyti frábrugðin því sem er í sjó. Hér á landi eru yfir eitt hundrað laxveiðiár auk áa með silungseiði. Á landinu eru hátt í tvö þúsund stöðuvötn sem eru yfir 1 ha að stærð. Grunnáhrif umhverfisþátta á vistkerfi ferskvatns og sjávar eru þau sömu og byggjast á magni næringarefna, hitastigi frum- og síðframleiðni. Vötn eru af ólíkum gerðum hvað varðar stærð, dýpi, uppruna og legu sem mótar það lífríki sem þar er að finna. Ár eru einnig af ólíkum gerðum og uppruna og má þar nefna jökulár, lindár, dragaár og svo vatnakerfi af blönduðum uppruna. Megin verkefni vöktunar á lífríki ferskvatns beinist að veiðinýtingu og undirstöðum hennar en annars konar nýting er einnig í vatni s.s. nýting þeirra sem uppustöðulóna og raforkuframleiðslu vatnsaflsvirkjna. Áhrif þeirra þarf að meta og vakta svo að ekki sé gengið á vatnsgæði en þar er ástand lífríkis notað sem mælikvarði á vatnsgæði. Þær tegundir fiska sem lifa í ferskvatni hér á landi annaðhvort þurfa eða gata gengið til sjávar sem hluta af sínum lífsferli. Þegar um sjógöngustofna er að ræða þarf að vakta afkomu þeirra og nýtingu bæði í ferskvatni og í sjó.

Seiðamælingar til vöktunar á ástandi seiðastofna í ám er mikilvæg forsenda sjálfbærar nýtingar fiskistofna, en árlega eru gerðar seiðamælingar í 30-40 ám hér á landi þar sem afkoma seiða og ástand þeirra er mæld. Flestar þeirra rannsókna eru gerðar fyrir tilstuðlan veiðifélaga og veiðiréttarhafa, en auk þess eru margar rannsóknir sem framkvæmdar eru vegna annarra verkefna, s.s. vegna ýmissa framkvæmda. Ítarlegar rannsóknir fara árlega fram á fiskstofnum og öðru lífríki tveggja áa sem gjarnan kallaðar lykilár, en niðurstöður vöktunar þeirra eru mikilvægar í alþjóðlegu samhengi vegna veiðiráðgjafar Alþjóða hafrannsóknaráðsins. Í ánum er fylgst með fjölda laxaseiða sem ganga til sjávar, sem og endurheimtum þeirra sem þá gefa mikilverðar upplýsingar um vöxt og afföll í sjó. Samhliða er fylgst með breytingum í magni og tegundasamsetningu hryggleysingja, auk fleiri þátta.

Vöktun stöðuvatna er gerð árlega m.a. í Mývatni, Þingvallavatni, Mjóavatn, Elliðavatni auk vatna sem tilheyra Veiðivötnum. Verulegar breytingar hafa sést í fiskstofnum sumra þessara vatna m.a hvað varðar tegundasamsetningu, stofnstærðir, vaxtarhraða, fæðu o.s.frv. án þess að tekist hafi fyllilega að skýra ástæður þeirra. Breytileiki í umhverfi getur verið mikill milli tímabila og ára og því mikilvægt að hafa gögn til að meta breytingar sem verða yfir langan tíma. Mælingar á umhverfisþáttum eru mikilvægar og er hitastig einn af meginþáttum sem áhrif hafa á lífríki og vöxt fiska. Áhersla hefur því verið lögð á það á síðustu árum að mæla vatnshita í ám og vötnum með síritandi hitamælum. Síðustu ár hefur hitafar verið vaktað í yfir 70 vatnaföllum víðsvegar um landið.

Á síðustu árum hafa komið fram miklar breytingar á stofnstærðum bleikju í ám og vötnum hér á landi. Á það bæði við um staðbundna stofna og stofna sjóbleikju. Samskonar fækkun hefur komið fram í Norður Noregi og því líklegt að um áhrif loftslagbreytinga sé að ræða. Mikilvægt er að auka þekkingu á ástæðum þessarar fækkunar en bleikja er víða mikilvægur veiðifiskur í ám og vötnum. Á sama tíma og bleikju hefur fækka hefur sjóbirtingi og staðbundnum urriða verið að fjölga væntanlega þar sem samkeppni við bleikju minnkar og að breytt umhverfisskilyrði séu hagstæðari urriða en bleikju.

Laxastofnar hafa einnig farið minnkandi og þar með veiði. Laxveiði er er stunduð bæði af innlendum og erlendum veiðimönnum og skilar umtalsverðum tekjum til veiðiréttarhafa. Þannig eru tekjur af laxveiði víða mikilvæg undirstaða afkomu í dreifðum byggðum. Minnkandi laxveiði getur því haft áhrif á búsetu og afkomu fólks hér á landi og einnig aðra framleiðslu landbúnaðarafurða. 

 

Ár og vötn í vöktun

Viðfangsefni vöktunar í ám og vötnum eru talsvert frábrugðin vöktunarverkefnum í sjó, enda um 1800 vötn að ræða sem eru stærri en einn hektari og yfir 100 veiðiár með reglulegri veiðiskráningu, auk smærri vatnsfalla. Grunnáhrif umhverfisþátta á vistkerfi ferskvatns og sjávar eru samt sem áður þau sömu og má þar t.d. nefna innihald næringarefna, frum- og síðframleiðni og hitastig.

Vötn eru af ólíkum gerðum hvað varðar stærð, dýpi, uppruna og legu og það mótar lífríkið sem þar er að finna. Ár eru einnig af ólíkum uppruna og gerðum, má þar nefna jökulár, lindár, dragaár og vatnakerfi af blönduðum uppruna.

Meginverkefni vöktunar á lífríki ferskvatns beinist að veiðinýtingu og undirstöðum hennar. Þegar um sjógöngustofna er að ræða þarf að vakta afkomu þeirra og nýtingu bæði í ferskvatni og í sjó. Annars konar nýting á vatni er t.d. sem uppistöðulón fyrir raforkuframleiðslu vatnsaflsvirkjana. Meta þarf og vakta áhrif þeirra svo ekki sé gengið á vatnsgæði og er þá ástand lífríkis notað sem mælikvarði á vatnsgæði. 

Mynd: Svanhildur Egilsdóttir

Veiðiskráning en einn mikilvægasti þátturinn varðandi nýtingu fiskstofna í fersku vatni. Veiði á laxi og silungi í ám og vötnum landsins er tekin saman árlega og birt í skýrslum sem eru öllum aðgengilegar. Samhliða skráningu á veiði er leitast við að safna hreistursýnum af veiddum fiskum. Út frá þeim má greina breytingar í vexti fiska, aldri við göngu í og úr sjó, uppruna þeirra, fyrri hrygningu og fleira.

Fiskteljarar voru reknir í ríflega 20 ám hér á landi árið 2022. Margir þeirra eru búnir myndavél, sem gefur möguleika á nákvæmri tegundagreiningu fiska. Með notkun fiskteljara er hægt að bera saman stærð göngu og veiðitölur og meta stofnstærð og veiðiálag.

Seiðamælingar og vöktun á ástandi seiðastofna í ám er mikilvæg forsenda sjálfbærrar nýtingar fiskistofna. Árlega eru gerðar seiðamælingar í 30-40 ám hér á landi þar sem afkoma seiða og ástand þeirra er mælt. Flestar rannsóknirnar eru gerðar fyrir tilstuðlan veiðifélaga og veiðiréttarhafa, en margar rannsóknir eru einnig vegna annarra verkefna, s.s. ýmissa framkvæmda.

Rannsóknir fara árlega fram á fiskstofnum og öðru lífríki tveggja áa sem eru gjarnan kallaðar lykilár. Niðurstöðurnar úr vöktun þeirra nýtast í veiðirágjöf Alþjóða hafrannsóknaráðsins og vöktun þeirra því mikilvæg í alþjóðlegu samhengi. Fylgst er með fjölda laxaseiða sem ganga til sjávar og endurheimtum þeirra. sem veitir mikilsverðar upplýsingar um vöxt þeirra og afföll í sjó. Samhliða er fylgst með breytingum í magni, tegundasamsetningu hryggleysingja og fleiri þáttum.

Vöktun stöðuvatna er m.a. í Mývatni, Þingvallavatni, Mjóavatni, Elliðavatni og vötnum sem tilheyra Veiðivötnum. Verulegar breytingar hafa orðið á fiskstofnum sumra þessara vatna, m.a tegundasamsetningu, stofnstærð, vaxtarhraða, fæðu o.fl., án þess að tekist hafi fyllilega að skýra ástæður þeirra. Breytileiki í umhverfi getur verið mikill milli tímabila og ára og því er mikilvægt að hafa handbær gögn til að meta langtíma breytingar.

Mæling vatnshita í ám og vötnum með síritandi vatnsmælum hefur verið áhersluverkefni á undanförnum árum, enda hitastig einn af meginþáttum sem hafa áhrif á lífríki og vöxt fiska. Hefur hitafar verið vaktað í yfir 70 vatnaföllum víðsvegar um landið en vatnshiti getur verið mjög breytilegur eftir uppruna vatnsfalla. Sveiflur í vatnshita og rennsli eru að jafnaði mun minni í lindám í dragám og hitafar getur því verið mjög mismunandi milli tímabila, eftir veðurfari og snjóalögum. Efnainnihald vatns er einnig vaktað með sýnatökum í fjórum ám. Sýni eru tekin fjórum sinnum á ári og gerð efnagreining á meginefnum í vatninu.

Sjókvíaeldi hefur aukist hratt á síðustu árum. Þar gegnir Hafrannsóknastofnun mikilvægu hlutverki til að tryggja að atvinnugreinin verði eins sjálfbær og unnt er. Stofnunin sinnir ýmsum verkefnum með þetta að markmiði. Hún gefur út burðarþolsmat fyrir hafsvæði, vaktar lífrænt álag og áhrif á vistkerfi á svæðum þar sem sjókvíaeldi er stundað, gefur út áhættumat erfðablöndunar og stundar rannsóknir á erfðablöndun og framkvæmd eldis.

Tímabundin rannsóknarverkefni


Átaksverkefni í þorskrannsóknum

 Í byrjun árs 2022 hófst fimm ára átaksverkefni í þorskrannsóknum. Verkefnið er víðfemt, en áhersla er lögð á þrjú meginviðfangsefni, stofngerð þorsks, útbreiðsla ungviðis og fæðuvistfræði. Öll miða viðfangsefnin að því að auka skilning á þorskstofninum og þar með bæta ráðgjöf um veiðar. Ekki fékkst fjárveiting í verkefnið fyrir árið 2024 og munu því rannsóknir komandi ára miða að því að ljúka þeim verkefnum sem hafin voru ef ekki fæst áframhaldandi fjármagn. 

Helstu verkefnin sem sinnt var á árinu 2023 var greining erfðasýna, áframhaldandi merking með rafeindamerkjum, efnagreining kvarna og kynþroskagreining var yfirfarin. Tekin voru saman gögn um fæðuvistfræði þorsks, niðurstöður merkinga 2019-2022, leiðbeiningar um kynþroskagreiningu, auk þess sem ástand þorskungviðis skoðað. Niðurstöðurnar voru kynntar á opinni málstofu í lok nóvember (finna má upptökur á Youtube rás stofnunarinnar) auk þess var gefin út skýrsla um framgang verkefnisins, sjá hér.

Á undanförnum misserum hefur orðið var örra breytinga í hafinu umhverfis Íslands, aukin áherslu hefur verið á vistkerfisnálgun og gerð sú sjálfsagða krafa að stundaðar séu sjálfbærar og ábyrgar veiðar. Það er því einkar mikilvægt að vísindalegur grunnur og þekking á þorskinum, mikilvægustu nytjategund okkar, sé styrkt. Í verkefninu hefur ýmis ný þekking litið dagsins ljós sem undirstrikar mikilvægi þorsksins í vistkerfinu og hvernig hlýnun og svo stækkun þorskstofnsins breytir stöðu hans. Hér verður lauslega minnst á tvö áhugaverð atriði, mikilvægi þrosksins sem ránfisks og hvernig merkingar með rafeindamerkjum varpa ljósi á far hans og útbreiðslu.


Mynd 1. Heildarát 2-10 ára þorsks (10 ára stendur fyrir 10 ára og eldri) í þúsundum tonna í 60 daga í febrúar og mars árin
1996-2023.

Hluti af fæðuvistfræði rannsóknum var að meta heildarát þorsks. Undanfarinn áratug eða svo hefur orðið mikil aukning í stærð hrygningastofni þorsks. Þegar metið át þorsks í febrúar og mars var skoðað sést að það hefur margfaldast hjá eldri fiski um og eftir árið 2010 (Mynd 1, neðsta röð). Hjá átta ára fiski var aukningin fjórföld og tíföld hjá 10 ára og eldri, þar sem einkum er étið meira af loðnu. Í nýlegri skýrslu „Fæða 36 tegunda botnfiska á Íslandsmiðum árin 1996-2023" (Jón Sólmundsson o.fl. 2024) greinir ítarlegar frá helstu fæðutegundum þorsks, sjá skýrsluna hér. 

Mynd 2. Myndin sýnir staðsetningar metnar út frá sjávarföllum
í rafeindamerki. Tölur merkja mánuð, blár punktur merkingastað og grænn
punktur endurheimtustað. Dýptarlínur eru 100, 200 og 500 m.


Mynd 3. Hitastigs- og dýpisferlar úr rafeindamerkinu.

Þorskur hefur verið veiddur í meira mæli undanfarin ár á Dohrnbanka, við Austurströnd Grænlands. Í átakinu hafa þorskar verið merktir þar og víðar. Fiskmerki úr rannsókninni eru farin að skila sér til baka, en ef fiskurinn liggur kyrr á botninum má sjá sjávarföll í ferli rafeindamerkisins sem bera má saman við spár sjávarfallalíkana og þannig staðsetja fiskinn innan ákveðinna marka (10x10 km). Dæmi um fisk merktan á Dohrnbanka 5. október 2022 og endurheimtur á svipuðum slóðum þann 11. júlí 2023 (mynd 2). Fiskurinn er Grænlands megin í desember en færist yfir Íslandsmegin eftir áramótin og er komin í Faxaflóa í febrúar, væntanlega að búa sig til hrygningar, en ekki finnast sjávarfallastaðsetningar eftir það og hann veiðist svo aftur Grænlands megin um sumarið. Í gegnum tíðina hafa rafeindamerkin varpað ljósi á ýmsa þætti líkt og atferli, útbreiðslu, hegðun stofngerða og undirstrika merkingar í átakinu mikilvægi þess að merkja þorsk og aðra nytjafiska reglulega.

Hnúðlax

Hnúðlax (Onchorhynchus gorbusca) er af tegund Kyrrahafslaxa sem Rússar fluttu fyrst frá Kyrrahafi og slepptu í ár við Hvítahaf og Kolaskaga um 1960. Frá þeim tíma stækkuðu stofnar hnúðlaxa talsvert en þó mest við Hvítahaf. Hnúðlaxar veiddust öðru hvoru í ám hér á landi í litlum mæli og helst varð vart við hænga sem hafa einkennandi hnúð á baki þegar nálgast hrygningu. Á árunum um 1990 náðu Rússar í annan stofn hnúðlaxa sem upprunninn í ám norðar við Otkoskahaf. Sá stofn virðist hafa náð að aðlagast betur en sá fyrri og hefur aukið stofnstærðir í ám við Norður-Atlantshaf og dreift sér mun víðar. Hnúðlax hefur tveggja ára lífsferil og því er í raun sitt hvor stofninn á odda tölu ári og jafntölu ári. Oddatölu stofninn er þó ávallt stærri bæði í Atlantshafi og Kyrrahafi. Samkvæmt veiðiskráningum þá hefur skráð veiði á hnúðlaxi farið vaxandi í ám hér á landi frá 2015 og er áætlað að um 500 laxar hafi veiðst á árinu 2023.

Mynd 4. Fjöldi veiddra hnúðlaxa í ám á Íslandi frá árinu 2003 samkvæmt skráningum í veiðibækur.

Ekki er enn vitað hvaða áhrif hnúðlax kemur til með að hafa á vistkerfi í ám hér á landi. Mögulega getur hann orðið nytjastofn að einhverju marki en einnig er mögulegt að hann hafi neikvæð áhrif á stofna laxfiska og þá ímynd sem íslenskar veiðiár hafa. Vorið 2022 var gerð tilraun til að veiða gönguseiði hnúðlaxa í þremur ám á vesturlandi, Botnsá, Grímsá og Langá. Veiddust gönguseiði í öllum þessum ám sem sýnir að hnúðlaxar hafa hrygnt í ánum og seiði alsit upp fram að sjávargöngu.

Mynd 5. Gildrur til veiða á gönguseiðum hnúðlaxa í Botnsá og gönguseiði hnúðlax.

Mikilvægt er að auka þekkingu á hnúðlaxi í ám hér á landi, líffræði og áhrifum á aðra fiskstofna og vistkerfi áa þ.m.t. stærð göngu, útbreiðsla, göngu- og hrygningartími áhrif umhverfisþátta og samspil við aðrar tegundir ferskvatnsfiska. Áhrif hnúðlaxa á stofna íslenskra laxfiska geta verið margvísleg, s.s. samkeppni um hrygningarsvæði, samkeppni um fæðu, sjúkdómar og neikvæð ímynd veiðiáa. Mikil verðmæti felast í villtum fiskstofnum og vistkerfum í ferskvatni þ.m.t. líffræðilegur fjölbreytileiki og því mikilvægt að vakta gaumgæfilega aðsteðjandi hættur, s.s. vegna framandi tegunda. Út frá niðurstöðum verður unnið að því að aðlaga lög og reglur að viðbrögðum við þessa nýju tegund.

Eldislax

Eldi á laxi í sjókvíum hér við land hefur aukist á síðustu árum og hefur framleiðsla síðustu þriggja ára verið yfir 40 þúsund tonn. Eldi í opnum sjókvíum fylgir að óhöpp verða og fiskar sleppa út í náttúruna. Lítill hluti þeirra nær að lifa af og leita í ár til hrygningar þar sem þeir hrygna og geta blandast villtum laxastofnum. Hafrannsóknastofnun hefur gert líkan áhættumat fyrir erfðablöndun eldilaxa of villtra laxa sem er endurskoðað á þriggja ára fresti í ljósi þeirrar reynslu sem safnast. Regluleg vöktun er gerð með teljurum í ám, seiði eru veidd og þau erfðagreind. Ef eldislaxar veiðast eru þeir einnig erfðagreindir og þar sem erfðaefni er til af öllum foreldrafiskum sem notaðir eru í eldi er mögulegt að rekja þá til strokstaðar í flestum tilfellum. Í ágúst 2023 var tilkynnt um gat á kví í Patreksfirði og að um 3500 laxar hefðu sloppið. Stuttu síðar fór að bera á eldislöxum í ám. Hafrannsóknastofnun tók á móti eldislöxum og fljótlega varð ljóst að þeir laxar sem veiddust í ám voru kynþroksa fiskar. Í framhaldi var gerð rannsókn á löxum á kvíastæðu sem sýndi að um 35% laxa þar var kynþroska. Þessi fjöldi eldislaxa í ám var litinn alvarlegum augum og var gripið til aðgerða til að veiða sem flesta þeirra meðal annars með því að fá kafara frá Noregi sem hafa sérþjálfun í veiðum á eldilöxum í ám. Alls bárust 468 laxar til rannsókna og erfðagreiningar og voru þeir nær allir úr kvínni í Patreksfirði.

Hafrannsóknastofnun metur burðarþol fjarða fyrir eldi á fiskum í sjókvíum en það miðast við það magn sem hægt er að ala án þess að hafa neikvæð áhrif á vatnsgæði í viðkomandi fjörðum. Enn er talsvert í að eldið sé komið að þeim mörkum sem metið hefur verið en mikilvægt er að vakta áhrif fiskeldi á vatnsgæði og lífríki á botni fjarðar. Þar getur mikið verið í húfi þar sem firðirnir eru mikilvægar uppeldisstöðvar stofna annarra nytjafiska. Mikilvægt er að auka þekkingu og rannsóknir á áhrifum laxeldis með hliðsjón bæði af áhrifum umhverfisskilyrða á fiska í eldi og á áhrifum eldisins á umhverfið.

Rafræn skráning veiði á laxi og silungi í ám og vötnum

Hafrannsóknastofnun í samstarfi við Fiskistofu opnaði aðgang fyrir rafræna skráningu á veiði fyrir veiðitímabilið 2023. Gerð og uppsetning á rafrænum aðgangi fyrir veiði var gerð af Hafrannsóknastofnun fyrir tilstuðlan Matvælaráðuneytisins. Með rafrænni skráningu ætti skráning veiði að verða einfaldari og vera í takti við nútímann auk þess sem aðgangur að veiðigöngum á að verða mögulegur í rauntíma yfir veiðitímann.

Skráningar formið má nálgast í gegnum vafra t.d. Google Chrome, Firefox eða Microsoft Edge á slóðinni https://veidibok.hafogvatn.is/. Skráningar eru gjaldfrjálsar og er hægt að framkvæma með nettengdum tölvum og snjalltækjum, og eru snjallsímar þar með taldir.  Taka má fram að skráning veiði er lagaskylda skv. 13 gr. laga nr. 61/2008. „Gera skal skýrslu um veiði í sérhverju veiðivatni og netlögum sjávarjarða og hvílir skylda til skýrslugjafar á handhafa veiðiréttar og sérhverjum þeim er veiði stundar“.Með opnun rafrænnar skráningar er gert ráð fyrir að hin hefðbundna skráning veiði í veiðibækur verði aflögð og að veiðiréttarhafar skrái og skil veiðiskráningu á rafrænu formi. Góð skráning veiði er einn af hornsteinum þess að vakta nýtingu þeirra auðlinda sem felast í fiskstofnum í ám og vötnum. Skráning lax- og silungsveiði hér á landi byggir á formi veiðibóka sem er að stofni til frá árinu 1946. Skráning laxveiði er almennt góð og kannanir sýna að 98% laxveiðinnar er skráð í veiðibækur. Silungsveiði hefur ekki verið eins vel skráð eða um 40% á landsvísu og er þar til nokkurs að vinna og vonast er til að skráning silungsveiði muni batna með tilkomu rafrænnar skráningar. Rafræn skráning mun leysa innsláttarvinnu upp úr veiðibókum af hólmi auk þess sem rauntímagögn yfir veiði verða aðgengileg yfir veiðitímann. Hægt er að skrá bæði stangveiði og netaveiði en skráning á netaveiði verður ekki sýnileg nema viðkomandi skráningaraðila og síðan samantekin fyrir vatnakerfi. Nokkur veiðifélög hafa skráð veiði rafrænt til nokkurra ára og aðilar eins og AnglingIQ bjóða veiðifélögum og veiðiréttarhöfum upp á skráningarform í appi. Þær skráningar eru samhæfðar við gagnagrunn Hafrannsóknastofnunar og gögn AnglingIQ eru lesin þar inn í lok veiðitíma.

Almennt hefur yfirfærsla í rafræna skráningu gengið vel þótt enn eigi nokkrir aðilar eftir að bætast í þann hóp sem skilar veiðiskráningum á rafrænu formi.

Kortlagning hafsbotnsins

Hafrannsóknastofnun hefur unnið að kortlagningu hafsbotnsins frá árinu 2000 og hófst sérstakt átaksverkefni árið 2017 (mynd 6) Markmið þess er að afla grunnþekkingar um hafsbotninn innan efnahagslögsögu Íslands sem mun nýtast í margþættum tilgangi og vera forsenda fyrir vísindalegri nálgun við sjálfbæra nýtingu, vernd og rannsóknir auðlinda í hafinu og bæði á og undir hafsbotninum. Verkefnið er unnið í samvinnu við Landhelgisgæslu Íslands sem sér um kortlagningu á grunnsævi, eða á innan við 100 metra dýpi. Á árunum 2000 til 2016 kortlagði Hafrannsóknastofnun ~ 12,3% af efnahagslögsögunni og tókst með þrautseigju að nýta dýran fjölgeislabúnaðinn umfram áætlaðan líftíma. Mikilvægi kortlagningarinnar var undirstrikað árið 2016 með tillögu Sigurðar Inga Jóhannessonar, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að Alþingi samþykki stórátak í kortlagningu hafsbotnsins á grundvelli 10 – 15 ára verkáætlunar. 

Mynd 6. Yfirlit af kortlögðum svæðum innan efnahagslögsögu Íslands á árinu 2023.

Átaksverkefnið hófst af krafti árið 2017 með nýjum mælitækjum og öflugu samstarfi stofnana og hagsmunaaðila á fjölmörgum sviðum. Á fimm ára tímamótum verkefnisins mældi Hafrannsóknastofnun aukalega >28% af efnahagslögsögu Íslands og hlutfall mælinga komið í 40,5%. Þrátt fyrir samdrátt í úthaldsdögum vegna bilana árið 2023 tókst að fullnýta þann tíma sem gafst til verkefnisins með góðum árangri. Í lok árs 2023 var gerð samantekt af öllum aðgengilegum samfelldum hafsbotnsmælingum íslenskra og erlendra rannsóknaleiðangra. Átaksverkefnið kortlagning hafsbotnsins hefur náð stórum áfanga, og stendur íslenska þjóðin framalega á alþjóðagrundvelli að hafa kortlagt meira en helming (50.3 %) af efnahagslögsögu landsins (mynd 6). 

Efling grunnrannsókna á loðnustofni

Átaksverkefni um loðnurannsóknir hefur verið í gangi á Hafrannsóknastofnun frá 2018. Því lauk formlega haustið 2023 með kynningu á helstu niðurstöður á ráðstefnu og útgáfu ítarlegum ágripum, sjá hér. Meginmarkmið þessa verkefnis var að öðlast betri skilning á því hvaða áhrif stórskala tilfærslur í dreifingu og stofnstærð loðnu hefðu haft á mismunandi lífssöguskeið loðnu. Rannsóknirnar einblíndu m.a. á langtímabreytingar á dreifingu og lífssögu loðnu, hrygningu og dreifingu loðnuseiða, fæðu loðnu, afrán á loðnu, og áhrif atferlis og lífeðlisfræðilegra þátta loðnu á mat lífmassa með bergmálsaðferð. Unnið er að birtingu á niðurstöðum rannsóknanna í ritrýnd tímarit.

Samantektarskýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar

Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar voru þátttakendur í gerð fjórðu samantektarskýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar á árinu 2023,  sjá hér. Titill skýrslunnar er „Umfang og afleiðingar hnattrænna loftslags­breytinga og áhrif þeirra á Íslandi“. Markmið vinnunnar er að kortleggja ástand þekkingar á loftslagsbreytingum og áhrifa þeirra hér á landi, hver séu helstu óvissuatriði tengd áhrifum loftslagsbreytinga og hvaða vafamál sé brýnt að skoða betur. Skýrslan skiptist í tíu megin efnisþætti og komu sérfræðingar stofnunarinnar einkum að skrifum á köflunum um lífríki á landi, þar með talið lífríki ferskvatns og ástandi sjávar og lífríki í sjó.

Starfsmenn á skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands unnu náið með nefndinni og aðstoðuðu við fundahöld og málstofur, sem og ritstörf og uppsetningu skýrslu.

Áhrif eldislaxa á vilta laxastofna

Stærsta einstaka átaksverkefni Ferskvatns og eldissviðs Hafrannsóknastofnuarn er vöktun veiðiáa vegna mögulegra áhrifa eldislaxa á villta laxastofna. Árlega er tekin saman skýrsla um þessa vöktun. Þeir meginþættir sem eru vaktaðir snúa að göngu fiska í ár með árvaka, greiningu uppruna í hreistri, erfðagreiningu seiða í ám og loks greiningu á uppruna meintra eldislaxa.

Söfnun gagna í samvinnu við útgerðir
Samstarf við Marel og Brim var um söfnun og nýtingu gagna úr vinnslulínum, en tækniframfarir í fiskiflokkurum gera það mögulegt að safna upplýsingum um einstaka fiska. Kláruð var vinna við veflausnir og stofnunin fær nú send gögn úr flokkurum frá Brim. Nú er unnið við prófanir á gæðum þeirra gagna með samanburðarmælingum, þróa villuleit á gögnunum og skoða aðra þætti sem geta haft áhrif á notagildi þeirra fyrir rannsóknarstarf stofnunarinnar.

Annar hluti verkefnisins var að skoða möguleikann á að nýta útgerðir sem viðmiðunarflota við sýnatöku úr afla. Eftir prófanir á hugbúnaði sem Norðmenn nota í sínum viðmiðunarlota var ljóst að ekki væri hægt að taka upp norska kerfið nema með töluverðri endurgerð og því var ráðist í að hefja vinnu við að þróa frekar Hafvog, núverandi gagnasöfnunarkerfi Hafrannsóknastofnunar til að geta sinnt þessu hlutverki, því það er mjög óhentugt að viðhalda tveimur gagnasöfnunarkerfum. Samhliða því að klára þróun á hugbúnaði hefur verið unnið að því að greina hve stór viðmiðunarfloti þarf að vera og hversu umfangsmiklum mælingum hann eigi að sinna og hvernig hann verður samþættaður við núverandi gagnasöfnun úr lönduðum afla.

Innleiðing viðmiðunarflota, gagna sem hægt að að fá frá fiskflokkurum mun ef vel tekst til skapa ný tækifæri til að auka gæði og hagkvæmni gagnasöfnunar úr afla fiskiskipa.

Tækniskuld

Á fyrri hluta árs 2023 hófst átaksverkefni Hafrannsóknastofnunar til að uppræta tækniskuld stofnunarinnar en verkefnið hafði fengið samþykktan styrk úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins að upphæð 50 milljónir kr. eftir ítarlega greiningu á vandanum frá Syndis um öryggismál og KPMG um innviði og framtíðarsýn hugbúnaðarþróunar. Starfsfólk Hafrannsóknastofnunar og samstarfsaðilar stóðu, og standa enn, frammi fyrir umfangsmiklu verkefni enda um uppsafnaðan tæknivanda að ræða.  Á síðastliðnu ári var sérstök áhersla lögð á að bæta öryggismál og enduruppbyggingu kerfisinnviða stofnunarinnar, sem bæði notendur og önnur kerfi styðjast við.