Fara í efni

Árlega stendur Sjávarútvegsskóli GRÓ fyrir sex mánaða þjálfunarnámi fyrir fagfólk frá þróunarlöndum sem starfar á sviði sjávarútvegs. Þá hefur skólinn umsjón með styrkjum til nemenda, sem útskrifast hafa úr sex mánaða náminu, til að stunda framhaldsnám við íslenska háskóla. Skólinn aðstoðar einnig fyrrum nemendur sína til að taka þátt í mikilvægum sjávarútvegsráðstefnum á alþjóðavettvangi. Auk þessa býður Sjávarútvegsskólinn upp á margvísleg stutt sérhæfð námskeið í samstarfslöndum sínum, tekur þátt í þróunarverkefnum Íslands á sviði sjávarútvegs, skipuleggur kynningarferðir um íslenskan sjávarútveg fyrir erlendar sendinefndir og sinnir sérfræðiráðgjöf. Sjávarútvegsskólinn er staðsettur í höfuðstöðvum Hafrannsóknastofnunar að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði og er starfsemin fjármögnuð með framlagi utanríkisráðuneytisins til þróunaraðstoðar í gegnum GRÓ miðstöð um þróunarsamvinnu.

Formlegir samstarfsaðilar Sjávarútvegsskólans, fyrir utan Hafrannsóknastofnun, eru Matís og Háskólinn á Akureyri og einnig hafa ýmiss fyrirtæki í sjávarútvegi stutt ötullega við bakið á starfsemi Sjávarútvegsskólans í gegnum tíðina. Sjávarútvegsskóli GRÓ starfar samkvæmt stefnu Íslands í þróunarmálum sem og áherslum UNESCO, en GRÓ miðstöðin starfar undir merkjum UNESCO sem “category 2” miðstöð. Fast starfsfólk skólans eru í 4,6 stöðugildum. Árið 2023 var starfsemin að mestu leidd af Mary Frances Davidson og Julie Ingham í fjarveru Þórs Heiðars Ásgeirssonar, sem var leyfi frá störfum forstöðumans til að sinna tveggja ára verkefni á Salómonseyjum á vegum Alþjóðabankans. Þór kom til starfa í lok október. Annað starsfsólk skólans voru; Stefán Úlfarsson, sérfræðingur, og í hlutastörfum voru Agnes Eydal, Warsha Singh, Zaw Myo Win, og Davíð Tómas Davíðsson.

UNESCO GRÓ Sjávarútvegsskóli á Íslandi tók til starfa 1. janúar 2020 og byggir á grunni Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem var stofnaður með þátttöku Hafrannsóknastofnunar árið 1998. Meginviðfangsefni skólans er að byggja upp færni og þekkingu meðal sérfræðinga á sviði sjávarútvegs og fiskeldis í þróunarlöndum og innan stofnana og samtaka sem þeir vinna hjá.


23 manna hópur kom til Íslands á vegum Alþjóðabankans og utanríkisráðuneytisins.

Í apríl 2023 útskrifuðust 22 nemendur frá 14 löndum, 

Þjálfun og námsstyrkir

Árlega bíður Sjávarútvegsskólinn fagfólki til sex mánaðar dvalar hér á landi til að efla fagþekkingu sína og stunda rannsóknir á málum tengdum þróun sjávarútvegs í sínu heimalandi. Boðið er upp á þjálfunarnám á fjórum sérviðum; stofnmati, gæðastjórnun í fiskiðnaði, sjálfbæru fiskeldi, og fiskveiðistjórnun. Rík áhersla er lögð á að sinna málum sem eru í brennidepli samstarfsstofnana í samstarfslöndunum ásamt því að sinna faglegum þörfum þeirra sem koma í þjálfunarnámið. Í apríl 2023 útskrifuðust 22 nemendur frá 14 löndum, 12 konur og 10 karlar, og í nóvember hófu 24 nemendur, 11 konur og 13 karlar, í þjálfunarnámið og munu þau útskrifast í maí 2024. Seinni hluta ársins tók Hafrannsóknastofnunin við framkvæmt á fiskeldislínu Sjávarútvegsskólans, en sú sérlína hafði verið í umsjá Háskólans á Hólum. Skipulag sérlínanna eru í höndum sérfræðinga á hverju sviði. Á Hafrannsóknastofnun sjá Dr. Theódór Kristjánsson, sérfræðingur á Ferskvatns- og eldissviði, og Dr. Warsha Singh, sérfræðingur á Uppsjávarsviði, um sérlínurnar Sjálfbært fiskeldi og Stofnmat. Sérlínan um Gæðastjórnun í fiskiðnaði er stjórnað af Margeiri Gissurarsyni hjá Matís, og Fiskveiðistjórnunalínan er í höndum Hreiðars Þórs Valtýssyni á Háskólanum á Akureyri. Yfirmenn sérlína Sjávarútvegsskólans mynda fagráð skólans sem hefur m.a. umsjón með faglegum efnistökum, leiðbeinendum, og lokaverkefnum nemendanna í sex mánaða þjálfunarnáminu.



Í nóvember 2023 hófu 24 nemendur, 11 konur og 13 karlar, í þjálfunarnámið og munu þau útskrifast í maí 2024. 

Skólastyrkir fyrir fyrrum nemendur Sjávarútvegsskólans hafi verið veittir frá 2005 aðilum sem staðið hafa sig vel í sex mánaðar þjálfunarnáminu, og hafa verið samþykktir í meistara og doktorsnám hér á landi. Árið 2023 fór fram mat á skólastyrkjum allra fjögurra GRÓ skólanna á Íslandi með það að markmiði að samræma úthlutun, kröfur og kjör á milli skólanna. Af þeim sökum var úthlutun styrkjanna stöðvuð árið 2023 og engir nýir styrkþegar teknir inn. Hins vegar voru sjö styrkþegar skráðir í doktorsnám á Ísland og útskrifaðist einn þeirra, Dr. Hang frá Vietnam, í júní. Hluti af kröfum um námsframvindu er að nemendur dvelji hluta af námstímanum í sínu heimalandi við rannsóknir á stofnuninni sem þeir vinna hjá. Af þeim sökum þiggja ekki allir skráðir nemendur stuðning frá Sjávarútvegsskólanum á hverjum tíma. Tveir nemendur fengu styrk til meistaranáms og munu báðir ljúka námi 2024.

Þátttaka Sjávarútvegsskólans á alþjóðlegum ráðstefnum

Mikilvægur liður í starfi Sjávarútvegsskólans er núorðið að gera fyrrum nemendum kleift að kynna rannsóknir sínar á alþjóðlegum ráðstefnum, enda ýtir það undir rannsóknir í sjávarútvegi og styrkir tengslanet fyrrum nemenda.

Sjávarútvegsskólinn úthlutaði árið 2022 ferðastyrkjum til ellefu nemenda sem valdir voru til að kynna rannsóknir sínar á IIFET-ráðstefnunni (International Institute of Fisheries Economics and Trade Conference) í Vigo á Spáni, auk þess sem úthlutað var 22 ferðastyrkjum til nemenda frá Afríku sem tóku þátt í ARBEC-ráðstefnunni (Aquatic Resources and Blue Economy Conference) í Kisumu, Kenía, í desember 2022.

Á ráðstefnunni í Kenía stóð Sjávarútvegsskólinn fyrir tengslaviðburði sem 35 fyrrum nemendur sóttu. Samræmingarfulltrúi alþjóðahaffræðinefndar UNESCO hélt þar ávarp. Þrír starfsmenn Sjávarútvegsskólans tóku í júní þátt í hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Lissabon.

Önnur verkefni Sjávarútvegsskólans

Sjávarútvegsskólinn sinni ýmsum öðrum verkefnum sem tengjast þróun sjávarútvegs í samstarfslöndunum. Stutt námskeið og vinnustofur eru oft á óskalista samstarfsaðilanna og er þá oftast tekin fyrir sértæk málefni með ákveðinn markhóp í huga.

Árið 2023 í júní var haldið námskeið í samstarfi við Fiskveiðistjórnunarsamtök Karíbahafsins (Caribbean Regional Fisheries Mechanisms – CRFM) á Barbados um skipulag og úrvinnslu gagna. Markhópurinn voru sérfræðingar í gagnagreiningu í aðildarlöndum CRFM og voru Einar Hjörleifsson og Warsha Singh stjórnendur námskeiðsins. Sú nýbreytni var að við undirbúning námskeiðsins voru vinnufundir með þátttakendum í gegnum netið til að sjálft námskeiðið nýttist sem best. Alls tóku 18 manns þátt og voru skipuleggjendur auk Einars og Wörshu frá skrifstofu CRFM. Gert er ráð fyrir áframhaldandi samstarfi hópsins 2024 til frekari styrkingar á notkun á þeim líkönum sem þróuð í tengslum við námskeiðið.

Árið 2023 í júní var haldið námskeið í samstarfi við Fiskveiðistjórnunarsamtök Karíbahafsins (Caribbean Regional
Fisheries Mechanisms – CRFM) á Barbados um skipulag og úrvinnslu gagna.

Í október kom 23 manna hópur til Íslands á vegum Alþjóðabankans og utanríkisráðuneytisins. Þátttakendur komu frá átta aðildarríkjum Alþjóðabankans í Kyrrahafi ásamt nokkrum verkefnastjórum sjávarútvegsmála hjá bankanum. Hópurinn dvaldi hér á landi í 10 daga og sá Sjávarútvegsskólinn um skipulag og framkvæmd heimsóknarinnar, en markmið hennar var að kynna sér nýtingu rauntímagagna við fiskveiðistjórnun ásamt því að skoða menntun, nýsköpun og vöruþróun í sjávarútvegi með áherslum á fullnýtingu hráefnis. Hópurinn fór meðal annars til Akureyrar og skoðaði þar sjávarútveginn ásamt því að fá fyrirlestra fá sérfræðingum Háskólans á Akureyri og Fiskistofu. Vel tókst til og voru myndbönd og útvarpsviðtöl gerð fyrir Kyrrahafssvæðið og Ástralíu.

GRÓ - þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, og samstarfið við UNESCO

GRÓ- þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu var stofnuð í janúar 2020 utan um skólana fjóra sem áður höfðu fallið undir Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU). Við stofnun GRÓ miðstöðvarinnar var miðstöðin og hennar starf sett undir UNESCO sem “category 2 center”. Hlutverk GRÓ er að samhæfa starfsemi skólana og sjá um grunnfjármögnun þeirra við að stuðla að uppbyggingu mannauðs á fjórum sérsviðum; jafnréttismála, sjávarútvegssmála, jarðhitamála og landgræðslu. Við það að tengjast UNESCO opnast möguleikar á samstarfi við svæðaskrifstofur UNESCO sem eru í um 50 löndum, and einnig fær UNESCO aðganga að rúmlega 1600 sérfræðingum sem hafa útskrifast frá skólunum á Íslandi.