Starfsemi Hafrannsóknastofnunar árið 2023 var, líkt og fyrr, að stórum hluta helguð vöktun umhverfisþátta og auðlinda hafs og vatna. Eru þeim verkefnum gerð góð skil í þessari skýrslu ásamt þeim áhersluverkefnum sem stofnunin hefur sinnt. Eins og fram hefur komið í fyrri ársskýrslum stofnunarinnar hefur hagræðingarkrafa stjórnvalda leitt til þess að dregið hefur úr vöktun lifandi auðlinda hafs- og vatna á undanförnum árum. Einnig hefur verið dregið úr vöktun umhverfisþátta.
Þannig má nefna að í stað ársfjórðungslegra vöktunarleiðangra á ástandi sjávar hefur leiðöngrum verið fækkað í þrjá. Samdrátturinn undanfarin ár og áratugi hefur eðlilega leitt til minna úthalds rannsóknaskipa stofnunarinnar og hafa þeir verið u.þ.b. 300 á ári s.l. þrjú ár, samanborið við um 480 daga að meðaltali á fyrsta áratug þessarar aldar og 550 áratuginn þar á undan. Þrátt fyrir framangreindan samdrátt sinnir stofnunin áfram viðamiklum vöktunar- og rannsóknaverkefnum með aukinni áherslu á vistkerfisnálgun.
„Samdrátturinn undanfarin ár og áratugi hefur eðlilega leitt til minna úthalds rannsóknaskipa stofnunarinnar og hafa þeir verið u.þ.b. 300 á ári sl. þrjú ár, samanborið við um 480 daga að meðaltali á fyrsta áratug þessarar aldar og 550 áratuginn þar á undan."
Hafrannsóknastofnun tekur þátt í mörgum samstarfsverkefnum með öðrum rannsóknastofnunum og háskólum og hefur veruleg aukning verið í slíkum verkefnum á síðustu árum. Þannig hefur fjármögnun margra verkefni verið úr samkeppnissjóðum en einnig hefur ýmsum þjónusturannsóknum og mælingum fjölgað, m.a. vegna efnagreininga og rannsókna. Má m.a. nefna að stofnunin hefur í auknum mæli sótt um um styrki til Evrópusambandsins með Matís ohf. og hefur það skilað mjög góðum árangri. Þessum verkefnum eru gerð skil í þessari ársskýrslu og samantektin sýnir vel hversu umfangsmikið samstarfsnet starfsfólk stofnunarinnar hefur byggt upp. Þannig aukast gæði rannsóknastarfsins, ný þekking og færni byggist upp og jafnframt auðveldar samstarfið okkur að finna svör við áleitnum rannsóknaspurningum, sem er vart á færi einnar stofnunar að sinna.
Myndir: Svanhildur Egilsdóttir
Stafrænt Ísland
Hafrannsóknastofnun safnar margvíslegum gögnum á ári hverju. Slík gögn fara í ýmsa gagnagrunna sem eru varðveitt og eru misvel aðgengileg starfsmönnum, samstarfsaðilum og almenningi. Úttekt var gerð á gagnagrunnum og söfnunarkerfum stofnunarinnar á árinu. Í úttektinni kom fram að ekki hefði verið nægjanlega gætt að því að sinna þróun á kerfunum og endurbótum á undanförnum árum og því væri þörf á sérstöku átaki til að bæta þar úr. Sérstök fjárveiting fékkst til að hefja þá vegferð en ljóst að mikil vinna er fyrir höndum áður en söfnunarkerfin, afritun, stjórn kerfanna og öryggi þeirra verði í samræmi við kröfur samtímans. Jafnframt eru núverandi kerfi þannig upp byggð að ekki er hægt að veita samstarfsaðilum og almenningi aðgang að gögnum sem stofnunin safnar með einföldum hætti og í samræmi við gagnastefnu stofnunarinnar. Það er ljóst að verkefnið tekur nokkurn tíma en er forsenda þess að aðgengi gagna verði bætt.
Áskoranir í fiskeldi
Lagareldi á sér langa sögu á Íslandi en hefur vaxið hratt síðasta áratuginn, fyrst og fremst í sjókvíaeldi á laxi. Að frumkvæði matvælaráðherra voru unnar skýrslur um atvinnugreinina sem ætluð var til undirbúnings stefnumótunar til framtíðar með áherslu á sjálfbærni. Annars vegar er um að ræða skýrslu Boston Consulting og hins vegar skýrslu Ríkisendurskoðunar. Báðar skýrslurnar voru kynntar snemma á árinu og sýna brýna þörf á að efla rannsóknir og innviði sem nauðsynlegir eru fyrir sjálfbæran vöxt lagareldis. Í samræmi við ábendingar í skýrslunum og áherslu matvælaráðherra á að styrkja rannsóknir tengdar lagareldi, lagði Hafrannsóknastofnun fram áætlun um sjö umfangsmikil verkefni sem þörf væri á að sinna til að styðja við markmið stjórnvalda um að skapa fiskeldi skilyrði til aukinnar
verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Strax og ljóst var að aukið fjármagn fengist hófst vinna við undirbúning og skipulagningu verkefnanna. Í fjármálaáætlun 2024-2028 er gert ráð fyrir eflingu rannsókna Hafrannsóknastofnunar í málafloknum og gangi sú áætlun eftir munu rannsóknir Hafrannsóknastofnunar tengdar fiskeldi og áhrifum þeirra á umhverfi og villta nytjastofna aukast til muna.
Myndir: Svanhildur Egilsdóttir
Auðlindin okkar
Í maí 2022 setti matvælaráðherra af stað verkefnið Auðlindin okkar. Skipaðir voru fjórir starfshópar til að greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum ásamt því að meta ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Starfshóparnir fjölluðu um samfélag, aðgengi, umgengni og tækifæri í sjávarútvegi. Umgengishópurinn fjallaði meðal annars um umgengi um sjávarauðlindina, vistkerfisnálgun, verndarsvæði, rannsóknir á lífríki og vísindalega ráðgjöf. Starfshóparnir skiluðu samtals 60 bráðabirgðatillögum í janúar 2023. Í ágúst sama ár var ráðherra skilað skýrslu um lokatillögur starfshópanna, framtíðarsýn og aðgerðaáætlun.
Í framtíðarsýn í tillögum starfshópsins kemur m.a. fram að ,,Nýting nytjastofna sjávar er sjálfbær og fer fram á grundvelli vistkerfisnálgunar og varúðarnálgunar, þar sem stuðlað er að verndun og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni. Ísland er í fremstu röð ríkja þegar kemur að verndun hafsvæða og vistkerfa.” Þessi framtíðarsýn er í fullu samræmi við þá nálgun sem Hafrannsóknastofnun hefur lagt ríka áherslu á og reynt að vinna eftir innan þess ramma sem fjármagn hefur leyft. Því var það fagnaðarefni þegar fjármálaáætlun 2024-2028 var samþykkt á Alþingi í júní. Þar kemur m.a. fram að ,,sjálfbær og ábyrg nýting lifandi auðlinda hafsins byggist fyrst og fremst á góðri vísindaþekkingu. Slík þekking er forsenda samkeppnishæfni íslenskra sjávarafurða á alþjóðamörkuðum sem er aftur grunnur þess að fiskveiðar stuðli að vexti íslensks atvinnulífs og samfélags.” Í samræmi við fjármálaáætlun lagði stofnunin fram áætlun um eflingu rannsókna sem lúta m.a. að heildrænni skoðun vistkerfa, kerfisbundinni kortlagningu búsvæða og líffræðilegan fjölbreytileika. Það er von okkar allra á Hafrannsóknastofnun að frá og með árinu 2025 verði þeirri fjármálaáætlun sem samþykkt var af Alþingi í júní 2023 að fullu fylgt þannig að hægt verði að sinna þeim áhersluverkefnum sem að var stefnt og fram kemur í stefnumörkun stjórnvalda.

Þórunn Þórðardóttir
Smíði nýs rannsóknaskips í stað Bjarna Sæmundsonar gekk vel á árinu og að mestu í samræmi við áætlanir. Fyrirhugað er að skipið verði afhent í október/nóvember 2024. Á haustmánuðum var ákveðið að skipið fengi nafnið Þórunn Þórðardóttir og einkennisstafina HF 300. Var nafngiftin tilkynnt þann 24. október, á baráttudegi kvenna. Þórunn Þórðardóttir (1925-2007) sem skipið er nefnt eftir var fyrsta íslenska konan með var sérfræðimenntuð í hafrannsóknum og mikill frumkvöðull í rannsóknum á smáþörungum í hafinu við Ísland. Þórunn vann allan sinn starfsaldur á Hafrannsóknastofnun. Fyrirhugað var að skipið yrði sjósett þann 15. desember en vegna mikilla rigninga í Vigo á Spáni síðastliðið haust varð að fresta því til 12. janúar 2024.
Þórunn Þórðardóttir HF 300 mun gegna lykilhlutverki í hafrannsóknum á komandi árum og áratugum og mun m.a. sinna mörgum þeim áhersluverkefnum sem sinna þarf á komandi árum, í samræmi áherslur stjórnvalda. Þar má nefna rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika, kortlagningu búsvæða, vöktun umhverfisáhrifa vegna sjókvíaeldis og fleiri mikilvæg verkefni.
Hafnarfirði, 31. mars 2024
Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar