Árlega stendur Sjávarútvegsskóli GRÓ fyrir sex mánaða þjálfunarnámi fyrir fagfólk frá þróunarlöndum sem starfar á sviði sjávarútvegs. Þá hefur skólinn umsjón með styrkjum til nemenda, sem útskrifast hafa úr sex mánaða náminu, til að stunda framhaldsnám við íslenska háskóla. Skólinn aðstoðar einnig fyrrum nemendur sína við að taka þátt í mikilvægum sjávarútvegsráðstefnum á alþjóðavettvangi.
Jafnframt býður skólinn upp á margvísleg stutt sérhæfð námskeið í samstarfslöndum sínum, tekur þátt í þróunarverkefnum Íslands á sviði sjávarútvegs, skipuleggur kynningarferðir um íslenskan sjávarútveg fyrir erlendar sendinefndir og sinnir sérfræðiráðgjöf.
UNESCO GRÓ Sjávarútvegsskóli á Íslandi tók til starfa 1. janúar 2020 og byggir á grunni Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem var stofnaður með þátttöku Hafrannsóknastofnunar árið 1998. Meginviðfangsefni skólans er að byggja upp færni og þekkingu meðal sérfræðinga á sviði sjávarútvegs og fiskeldis í þróunarlöndum og innan stofnana og samtaka sem þeir vinna hjá.
Útskriftarathöfn í mars 2022
Nemendur Sjávarútvegsskóla GRÓ, þar sem konur voru í meirihluta, með matvælaráðherra.
Þjálfun og námsstyrkir
Sjávarútvegsskólinn náði þeim merka áfanga í byrjun mars 2022 að útskrifa stærsta nemendahóp sinn til þessa, alls 27 nemendur (15 konur og 12 karla) frá 16 ólíkum samstarfslöndum. Samtals hefur skólinn útskrifað 442 nemendur frá árinu 1998.
Í ágúst 2022 fór fram vel heppnuð doktorsvörn nemanda Sjávarútvegsskólans og skólinn framlengdi styrki til sex doktorsnema á árinu og veitti tvo nýja nemendastyrki, einn doktorsnemastyrk og einn MSc-styrk.
Þátttaka Sjávarútvegsskólans á alþjóðlegum ráðstefnum
Mikilvægur liður í starfi Sjávarútvegsskólans er núorðið að gera fyrrum nemendum kleift að kynna rannsóknir sínar á alþjóðlegum ráðstefnum, enda ýtir það undir rannsóknir í sjávarútvegi og styrkir tengslanet fyrrum nemenda.
Sjávarútvegsskólinn úthlutaði árið 2022 ferðastyrkjum til ellefu nemenda sem valdir voru til að kynna rannsóknir sínar á IIFET-ráðstefnunni (International Institute of Fisheries Economics and Trade Conference) í Vigo á Spáni, auk þess sem úthlutað var 22 ferðastyrkjum til nemenda frá Afríku sem tóku þátt í ARBEC-ráðstefnunni (Aquatic Resources and Blue Economy Conference) í Kisumu, Kenía, í desember 2022.
Á ráðstefnunni í Kenía stóð Sjávarútvegsskólinn fyrir tengslaviðburði sem 35 fyrrum nemendur sóttu. Samræmingarfulltrúi alþjóðahaffræðinefndar UNESCO hélt þar ávarp. Þrír starfsmenn Sjávarútvegsskólans tóku í júní þátt í hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Lissabon.
Starfsfólk Sjávarútvegsskólans
Starfsfólk skólans í október 2022, tilbúið að taka á móti nemendum næstu sex mánaða.
Þátttaka í þróunarsamvinnu
Í samstarfi við Háskólann á Akureyri skipulagði Sjávarútvegsskólinn vikulangt námskeið í maí fyrir hóp embættismanna frá Indónesíu. Hópurinn kom hingað til lands til að fræðast um fiskveiðistjórnun með stuðningi frá Alþjóðabankanum. Í júní tók skólinn á móti sendinefnd frá PRO BLUE-sjóðnum sem Alþjóðabankinn hýsir.
Að beiðni utanríkisráðuneytisins skipulagði skólinn vikulanga kynnisferð í september fyrir sendinefnd frá Síerra Leóne um íslenskan sjávarútveg. Sjávarútvegsráðherra landsins fór fyrir hópnum en í honum voru tveir fyrrum nemendur Sjávarútvegsskólans, sem starfa nú hjá sjávarútvegsráðuneyti Síerra Leóne.
Á árinu lauk vinnu sem skólinn tók að sér fyrir NÍRAS-ráðgjafarfyrirtækið og fólst í úttekt á svokallaðri EAF Nansen-áætlun. Hún er eitt stærsta styrktarframlag til þróunar fiskveiða í heiminum og er samstarfsverkefni FAO, NORAD og IMR, (norsku Hafrannsóknastofnunarinnar).
Samstarfið við UNESCO og GRÓ - þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu
Sjávarútvegsskóli GRÓ er einn fjögurra skóla sem mynda GRÓ-Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu og starfar undir merkjum Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Sjávarútvegsskólinn er fjármagnaður af ríkisstjórn Íslands og hýstur hjá Hafrannsóknastofnun.
Árið 2022 markaði GRÓ sér breytingarkenningu (e. Theory of Change) fyrir tímabilið 2022–2027 og setti fram stefnumarkandi áherslur sem stýra starfi miðstöðvarinnar fram til 2027. Lykilmarkmið er að skapa samlegðaráhrif á milli GRÓ-skólanna fjögurra á Íslandi.