Fara í efni

Hafrannsóknastofnun er þáttakandi í áhugaverðum samstarfsverkefnum sem styrkt eru af rannsóknarsjóðum Evrópusambandsins og fleirum.
Samstarfið er mikilvægt þar sem öflugar rannsóknir eru yfirleitt þess eðlis að engin ein þjóð getur staðið undir slíkum rannsóknum, hvort sem horft er til umfangs eða kostnaðar.

Með samfélagslegum breytingum, breyttum áherslum og nýjum áskorunum eru að verða breytingar á rannsóknaþörf Hafrannsóknastofnunar til framtíðar litið en stofnunin tekur þegar þátt í fjölda samstarfsverkefna með innlendum og erlendum aðilum

 

Samstarfsverkefnin með ESB

Átta verkefni sem rannsóknarsjóðir ESB styrkja eru:

COMFORT: Tilgangur verkefnisins er að öðlast betri skilning á snöggum stórvægilegum breytingum sem geta orðið í vistkerfum í sjó (e. tipping points), sérstaklega í samhengi við loftslagsbreytingar og aðar stórar umhverfisbreytingar af manna völdum. Verkefnið stendur yfir frá 2019 til 2023. https://comfort.w.uib.no/

EATFISH: Þverfaglegt rannsóknarverkefni sem miðar að því að samþætta líffræðilega, tæknilega, félagshagfræðilega og stjórnarhætti sem þarf fyrir sjálfbært og arðbært fiskeldi. Markmið verkefnahluta Hafrannsóknastofnunar er að kanna og þróa möguleika nýrrar genaþöggunartækni (non-GMO) til að koma í veg fyrir kynþroska hjá Atlantshafslaxi (Salmo salar). Með því að gera eldislax ófrjóan er hægt að koma í veg fyrir erfðablöndun frá eldislöxum yfir í villta laxastofna. https://eatfish-msc.com/

ECOTIP: Markmið verkefnisins er að rannsaka og spá fyrir um umhverfisbreytingar í hafinu á norðurslóðum sem hafa áhrif á lífríkið og geta komið af stað keðjuverkun (e. cascading effects) við nýtingu þess. https://ecotip-arctic.eu/

Eurofleets+: Hafrannsóknastofnun hefur tekið þátt í Eurofleets+ verkefni Evrópusambandsins um árabil. Markmið verkefnisins er að þátttökuþjóðirnar eigi kost á því að opna fyrir aðgang að rannsóknarinnviðum fyrir vísindamenn sem stunda rannsóknir sem tengjast hafinu. Á árinu 2022 var R/S Árni Friðriksson notaður í átta daga í rannsóknarverkefni í gegnum þetta verkefni sem skapaði stofnuninni á kringum þrjátíu milljóna króna sértekna.
https://eurocean.org/blog/news-events-calls/

iAtlantic: Verkefnið tengir saman vísindamenn, rannsóknir og gögn þvert yfir Atlantshafið í þeim tilgangi að veita innsýn í hringrás hafsins í fortíð, nútíð og framtíð. Nýjasta tækni og myndgreiningar er notuð til að þróa forspárlíkön til að auka skilning á dreifingu búsvæða í djúpsjó. Kortagrunnur er tengdur erfða- og vistfræðilegum tímaraðagögnum til að veita áður óþekkta sýn á áhrif loftslagsbreytinga á vistkerfi Atlantshafsins. https://www.iatlantic.eu/

MEESO: Meginmarkmið verkefnisins er að rannsaka hvort hægt er að stunda sjálfbærar veiðar með tilliti til vistkerfisins og kostnaðar á miðsjávarlagi hafsins. http://www.meeso.org/

MISSION ATLANTIC: Sjálfbær stjórnun auðlinda hafsins byggir á getu til að meta og spá fyrir um áhrifaþætti breytinga og áhrif þeirra á vistkerfi hafsins. Þetta mat er háð mikilli óvissu og tengsl ólíkra áhrifaþátta geta verið flókin. Til að takast á við þessar áskoranir mun MISSION ATLANTIC styðja stjórnendur náttúruauðlinda og stefnumótendur nýtingaráætlana í að nálgast jafnvægi í þörf fyrir umhverfisvernd og sjálfbæra þróun, byggt á nýjum vísindalegum upplýsingum. Þannig stuðlar verkefnið að jákvæðri þróun auðlindanýtingar fyrir Atlantshafið. https://missionatlantic.eu/

SUMMER: Meginmarkmið verkefnisins er að meta hvort og hvernig megi nýta lífríki miðsjávarlags NA-Atlantshafs án þess að skaða vistkerfin. https://summerh2020.eu/

Samstarfsaðilar við birtingu vísindagreina 2022
Helstu samstarfsaðilar Hafrannsóknarstofnuanr við birtingu vísindagreina í ritrýndum tímaritum árið 2022. Í heildina voru greinarnar 63 talsins. Prósentutölurnar segja til um hlutfall greina sem unnar voru í samstarfi við tiltekna stofnun eða háskóla en oftar en ekki eru nokkrar stofnanir á bakvið hverja grein.

Önnur rannsóknarverkefni og alþjóðlegt samstarf

Annað alþjóðlegt samstarf er einnig umfangsmikið. Helsti samstarfsvettvangurinn þar er Alþjóðahafrannsóknarráðið, ICES, en mikið samstarf er einnig við Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðið NAMMCO, Alþjóðahvalveiðiráðið IWC og norrænt samstarf.
Ýmis önnur samstarfsrannsóknaverkefni, styrkt t.d. af Rannís, Norrænum rannsóknasjóðum og JPIOceans, eru einnig yfirstandandi.


Samstarf Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunar

Samstarf er milli Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunar í meistaranámi í fiskifræði og skyldum greinum. Einn starfsmaður sinnir skipulagningu og kennslu við HÍ en auk hans kemur fjöldi sérfræðinga hjá stofnuninni að kennslu.

Starfsfólk stofnunarinnar kemur einnig að ýmsu öðru háskólanámi, s.s. með stundakennslu og sem leiðbeinendur nemenda í meistara- og doktorsnámi.