Árið 2022 markar enn ein tímamótin í sögu Hafrannsóknastofnunar. Í ársbyrjun tók gildi nýtt skipurit þar sem farið var í töluverða endurskipulagningu á stofnuninni og einnig náðist merkur áfangi í margra ára baráttu fyrir því að þjóðin eignist nýtt hafrannsóknaskip.
„Ef ná á þeim markmiðum sem að er stefnt er ljóst að efla þarf rannsóknir á vistkerfum innan efnahagslögsögunnar, hvort heldur sem er í hafi eða á landi“
Öflugar hafrannsóknir forsenda sjálfbærrar nýtingar
Fáar þjóðir eiga eins mikið undir lífríki hafsins og við Íslendingar. Öflugar hafrannsóknir og vöktun á umhverfi sjávar eru forsenda sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlindanna sem auka þekkingu á umhverfinu og þeim breytingum sem þar eru að verða. Það var því mikið fagnaðarefni þegar undirritaður var samningur við skipasmíðastöðina Astilleros Armón í Vigo á Spáni þann 31. mars 2022 um smíði á nýju rannsóknaskipi fyrir stofnunina. Með undirrituninni var stórum áfanga náð í því baráttumáli að þjóðin eignist nýtt rannsóknaskip sem leysi af hólmi Bjarna Sæmundsson, sem gerður hefur verið út frá árinu 1970. Framkvæmdir við hönnun og smíði nýja skipsins hafa að mestu gengið eftir áætlun og gert er ráð fyrir að það verði afhent í október árið 2024.
Nýja rannsóknaskipið mun gegna lykilhlutverki í hafrannsóknum á komandi árum og áratugum og má m.a. nefna í því samhengi nýlega samþykktar fyrirætlanir um víðtæka vernd vistkerfa og líffræðilegs fjölbreytileika fyrir árið 2030. Slík verkefni verða ekki unnin án rannsókna á vistkerfum og þar mun nýtt rannsóknaskip gegna lykilhlutverki.
Undirritun samnings um smíði nýs hafrannsóknaskips
Þorsteinn Sigurðsson forstjóri, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Laudelino Alperi Baragaño, forstjóri skipasmíðastöðvarinnar Astilleros Armón í Vigo á Spáni.
Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir.
Nýtt skipurit með nýrri framtíðarsýn
Í ársbyrjun tók gildi nýtt skipurit þar sem farið var í töluverða endurskipulagningu á stofnuninni, í framhaldi af vinnu árið 2021 við að móta henni nýja framtíðarsýn.
Meginbreytingarnar fólust í eflingu stoðsviða og breytingum á rannsóknasviðum stofnunarinnar. Umhverfismálum var komið fyrir á sérstöku sviði sem sinnir vöktun og rannsóknum á umhverfi, loftslagsmálum, burðarþoli fiskeldis, ásamt fleiri verkefnum. Þá var ákveðið að sameina svið fiskeldis og ferskvatnsrannsókna en verkefni er lúta að áhrifum fiskeldis á lífríkið voru að hluta til færð undir hið nýja umhverfissvið.
Framkvæmdastjórn stofnunarinnar er skipuð sviðsstjórum rannsóknasviðanna fjögurra, sviðstjórum stoðsviðanna og forstjóra. Nokkrar breytingar urðu á framkvæmdastjórninni árið 2022 vegna breytinga á skipuritinu og einnig létu tveir sviðstjórar af störfum að eigin ósk.
Vöktun nytjastofna fyrirferðarmikil
Starfsemi Hafrannsóknarstofnunar árið 2022 var að miklu leiti helguð vöktun umhverfisþátta og auðlinda hafs og vatna.
Sem fyrr var vöktun helstu nytjastofna fyrirferðarmikil í starfseminni en sökum aðhaldskrafna á undanförnum árum hefur þó dregið úr vöktun ýmissa nytjastofna, s.s. humars, hörpudisks og rækju. Einnig hefur verið dregið úr vöktun umhverfisþátta. Í stað ársfjórðungslegra vöktunarleiðangra á ástandi sjávar hefur leiðöngrum verið fækkað í þrjá. Auk vöktunar var ýmsum rannsóknaverkefnum, bæði stærri og smærri verkefnum, sinnt á árinu ásamt margvíslegum þjónustuverkefnum, s.s. við efnagreiningar, umsagnir og þjónustu við veiðifélög og fyrirtæki.
Meðal nýrra rannsóknaverkefna sem var unnið að er átak í þorskrannsóknum sem er ætlað að bæta skilning á stofngerð þorsks, dreifingu ungviðis og fari milli hafsvæða.
Gjöfult samstarf - fjárskortur áhyggjuefni
Hafrannsóknarstofnun tekur þátt í mörgum samstarfsverkefnum með öðrum rannsóknastofnunum og háskólum. Þeim verkefnum eru gerð skil í ársskýrslunni og samantektin sýnir vel hversu umfangsmikið samstarfsnet starfsfólk stofnunarinnar hefur byggt upp. Þannig aukast gæði rannsóknastarfsins, ný þekking og færni byggist upp og jafnframt auðveldar samstarfið okkur að finna svör við áleitnum rannsóknaspurningum, sem er vart á færi einnar stofnunar að sinna.
Það er áhyggjuefni hvernig fjármagn til haf- og vatnarannsókna hefur dregist saman á undanförnum árum með þeim afleiðingum að dregið hefur úr grunnrannsóknum og vöktun auðlinda. Þetta er bagalegt, ekki síst í ljósi umhverfisbreytinga sem kalla á auknar rannsóknir, til að skilja áhrif þeirra á lífríkið og mögulegar afleiðingar til lengri tíma litið. Þá eru sífellt auknar kröfur um sjálfbærni við nýtingu og að nýtingin valdi ekki óafturkræfum áhrifum á umhverfið.
Ljóst er því að mikil þörf er á styrkari fjármögnun til að stofnunin geti rækt þær skyldur sínar að sinna vöktunar- og grunnrannsóknum. Þá er fiskeldi ört vaxandi atvinnugrein hér við land og brýnt að styrkja rannsóknir og vöktun á áhrifum eldis, bæði til að styðja við eldið og til að fylgjast markvisst með þeim áhrifum sem eldi kann að hafa á lífríki fjarða, sem og villta stofna þeirra tegunda sem eru í eldi.
Efla rannsóknir - í hafi og á landi
Undir lok ársins 2022 var haldin ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika þar sem samkomulag náðist um að vernda 30 prósent af landsvæðum plánetunnar, strandsvæðum og innhöfum fyrir lok áratugarins. Hluti samkomulagins er að viðhalda, efla og endurheimta vistkerfi, þar með talið að stöðva útrýmingu tegunda og viðhalda erfðafræðilegum fjölbreytileika stofna villtra dýra.
Hafrannsóknastofnun fagnar þessum áfanga en bendir jafnframt á að krefjandi verkefni eru fyrir höndum sem verða ekki leyst án víðtækrar þekkingar á vistkerfum. Ákvarðanir um gerð verndunar, staðsetningu verndarsvæða og vöktun á þeim svæðum þurfa að byggja á bestu mögulegum upplýsingum. Síðustu áratugi hefur þekking aukist mikið en enn vantar lykilupplýsingar um vistkerfi, líffræðilega fjölbreytni og búsvæði sem mikilvægt er að hafa tiltækar á þeirri vegferð sem fram undan er.
Ef ná á þeim markmiðum sem að er stefnt er ljóst að efla þarf rannsóknir á vistkerfum innan efnahagslögsögunnar, hvort heldur sem er í hafi eða á landi.
Þorsteinn Sigurðsson
forstjóri Hafrannsóknastofnunar