Fara í efni

Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar voru 190 talsins í 178 stöðugildum í árslok 2022. Starfsfólk sem hefur ekki íslensku sem fyrsta tungumál er 8,4% af heildarstarfsmannafjölda stofnunarinnar.
Hlutfall kvenna er 36% og karla 64%. Þegar kynjahlutföll eru skoðuð án áhafna á rannsóknaskipun stofnunarinnar eru hlutföllin jafnari, eða 45% konur og 55% karlar. Meðalaldur var ríflega 50 ár, meðalaldur kvenna 47 ár en karla 52 ár. Starfsmannavelta árið 2022 var 4,72%.

Hafrannsóknastofnun leggur áherslu á að vera eftirsóknarverður vinnustaður með markvissri jafnréttisstefnu þar sem árangursríkt starf og faglegur metnaður geti dafnað. Starfsfólkið er af 13 þjóðernum og með margskonar menntunarlegan bakgrunn sem gerir stofnunina að skemmtilegum og áhugaverðum vinnustað

 


Heilsa og vellíðan

Hjá Hafrannsóknastofnun er lögð áhersla á að skapa umhverfi sem styður við heilsu, ánægju og vellíðan starfsfólks, jafnt í vinnu sem einkalífi og að samskipti séu góð og einkennist af virðingu. Starfsfólk er hvatt til að tjá hug sinn, setja fram hugmyndir, spyrja spurninga og það má gera mistök. Einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni, sem og annað ofbeldi er ekki liðið. Stofnuninni er annt um heilsu og vellíðan starfsfólks og leitast er við að styrka og styðja starfsfólk stofnunarinnar og tryggja því aðgang að úrræðum og þjónustu til þess að bæta heilsu og vellíðan.

Á vinnustaðnum er lögð áhersla á að bjóða upp á fjölbreytt og heilsusamlegt fæði, boðið er upp á háls- og herðanudd vikulega og jógatíma í hádeginu einu sinni í viku. Þá var sérstakt hvíldar- og hugleiðsluherbergi útbúið þar sem starfsfólk getur lokað að sér í rólegu og þægilegu umhverfi og stundað hugleiðslu og/eða fengið endurnærandi nudd með nuddtækjum sem þar eru. Einnig er boðið upp á heilsufarsmælingar, flensusprautur, sálfræðiþjónustu, líkamsræktarstyrki og samgöngustyrki. Þá var starfsfólki í fyrsta sinn boðið upp á sálfræðiþjónustu.

Mikill vilji er til þess að bæta um betur og bjóða starfsfólki upp á enn frekari þjónustu, með það að leiðarljósi að bæta heilsu og velferð starfsfólks stofnunarinnar svo það verði enn betur í stakk búið til þess að takast á við áskoranir í bæði lífi og starfi.


Fræðsluefni aðgengilegt öllum

Stofnunin er með eigið fræðslukerfi fyrir starfsfólk. Fræðsluefnið er aðgengilegt öllu starfsfólki strax frá fyrsta degi í starfi.

Í kjölfar mikilla og krefjandi óvissutíma var á liðnu ári lögð mikil áhersla á fræðsluefni sem snýr að grunnhæfni starfsfólks, virkni og vellíðan starfsfólks, jafnt líkamlega sem andlega. Má þar nefna fræðslu til að auka virkni í starfi og bæta tímastjórnun, samskipti, teymisvinnu, um rétta líkamsbeitingu og uppstillingu vinnuaðstöðu. Var m.a. boðið upp á námskeið í núvitund með það að markmið að stuðla að auknum lífsgæðum í lífi og starfi. Á árlegum starfsdegi voru samskipti og samvinna í brennidepli.

Starfsmannafélagið stóð einnig fyrir viðburðum og uppákomum sem lífguðu upp á starfsandann á vinnustaðnum. Auk þess sem starfsfólki var gerður dagamunur á viðburðadögum í þjóðfélaginu, starfslokahófum og jólagleði starfsfólks.

 

Jafnrétti skiptir máli

Áhersla er lögð á jafnrétti hjá Hafrannsóknastofnun og að nýta styrkleika starfsfólksins, óháð kyni. Stofnunin hefur farið einu sinni í gegnum fulla jafnlaunaúttekt og ný úttekt fer fram á næsta ári.

Hafrannsóknastofnun hlaut fyrst jafnlaunavottun 2021 sem gildir til þriggja ára, út árið 2023. Til að viðhalda vottuninni eru gerðar reglubundnar árlegar úttektir þar sem sannreynt er að stofnunin vinni eftir skjalfestu verklagi, farið er yfir niðurstöður launagreininga og staðfest að lagfæringar sem lagðar hafa verið til hafi verið framkvæmdar.

 

Launamun kynja verður útrýmt

Niðurstöður launagreininga sem liggja fyrir sýna að árangur hefur náðst í jafnréttismálum hjá stofnuninn en þær sýna líka að nauðsynlegt er að gera betur í þeim efnum. Því hefur stofnunin sett sér metnaðarfull markmið til að útrýma launamun kynjanna með því að endurskoða matsþætti launakerfisins og virðismeta störf hjá stofnuninni.

Þessi markmið eru afrakstur af þátttöku Hafrannsóknastofnunar í þróunarverkefni um virðismatkerfi starfa sem forsætisráðuneytið stóð fyrir. Þar var lagt upp með að fá fram tillögur um aðgerðir sem dygðu til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði. Þátttaka í verkefninu var bæði áhugaverð og lærdómsrík og hafa stjórnendur stofnunarinnar miklar væntingar um að verkefnið skili verkferlum sem tryggi að störf verði virðismetin á hlutlausan hátt.