Fara í efni

Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, er ein stærsta rannsóknastofnun landsins og tók til starfa árið 2016. Hún sinnir fjölbreyttum verkefnum sem skilgreind eru í lögum nr. 112/2015 en meginhlutverk stofnunarinnar er að stuðla að sjálfbærri nýtingu á auðlindum í hafi, ám og vötnum.

Vöktunarverkefni eru lykilþættir starfseminnar en þar eru einnig stundaðar fjölbreyttar rannsóknir sem ýmist má flokka undir grunnrannsóknir eða þjónusturannsóknir. Stofnunin gegnir jafnframt mikilvægu hlutverki við ráðgjöf og umsagnir.

Haf og fiskrannsóknir á Íslandi eiga sér langa sögu.
Lög um Hafrannsóknarstofnun voru sett árið 1965 og fimmtíu árum síðar samþykkti Alþingi lög um sameiningu Hafrannsóknarstofnunar og Veiðimálastofnunar, stofnunar sem á sér einnig merka sögu og rekja má aftur til ársins 1945

 

 

 Starfsstöðvar Hafrannsóknarstofnunar árið 2022
Höfuðstöðvarnar eru í Hafnarfirði og útibú eru á Hvanneyri, Ísafirði og Akureyri, í Neskaupstað, Vestmannaeyjum, Árborg og Grindavík. Útibúinu í Ólafsvík var lokað í árslok 2022.

 

Tíu starfsstöðvar og tvö rannsóknarskip

Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar voru 190 talsins í árslok 2022 á tíu starfsstöðvum vítt og breitt um landið. Flest, eða 128, starfa í höfuðstöðvunum í Hafnarfirði en aðrar starfsstöðvar eru fiskeldisstöð stofnunarinnar í Grindavík (5), Ísafjörður (5), Hvanneyri (3), Akureyri (2), Hvammstangi (2), Selfoss (2), Neskaupstaður (1), Vestmanneyjar (1), og Ólafsvík (1) en síðastnefndu starfstöðinni var lokað í árslok 2022. Stofnunin heldur einnig úti tveimur rannsóknarskipum með 39 manns í áhöfn, þar af eru 23 í áhöfn Árna Friðrikssonar og 16 í áhöfn Bjarna Sæmundssonar.

 

Nýtt skipurit

Þann 1. janúar 2022 tók gildi nýtt skipurit fyrir Hafrannsóknastofnun þar sem breytingar voru gerðar á uppbyggingu stofnunarinnar, samhliða vinnu sem hófst árið 2021 við mótun nýrrar framtíðarsýnar

Skipurit Hafrannsóknastofnunar frá 1. janúar 2022
Rannsóknarsviðin eru botnsjávarsvið, uppsjávarsvið, umhverfissvið og ferskvatns- og eldissvið. Stoðsviðin eru fjármál og rekstur, mannauður og svið gagna og miðlunar.

Ný framkvæmdastjórn

Með breyttu skipuriti urðu mannabreytingar í framkvæmdastjórn Hafrannsóknarstofnunar. Fjórir nýir sviðsstjórar voru ráðnir til stofnunarinnar árið 2022, þau Guðbjörg Ásta Einarsdóttir, sviðsstjóri botnsjávarsviðs, Guðmundur I. Bergþórsson, sviðsstjóri fjármála og reksturs, Harpa Þrastardóttir, sviðsstjóri gagna og miðlunar og Hrönn Egilsdóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs. Í framkvæmdastjórn eru einnig Berglind Björk Hreinsdóttir mannauðsstjóri, Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs, Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatns- og eldissviðs og Þorsteinn Sigurðsson forstjóri. Eftir breytingarnar eru jöfn kynjahlutföll í framkvæmdastjórninni.

Guðbjörg Ásta Einarsdóttir

Guðmundur I. Bergþórsson

Guðmundur Óskarsson

Hrönn Egilsdóttir

Harpa Þrastardóttir

Berglind Björk Hreinsdóttir

Guðni Guðbergsson

Þorsteinn Sigurðsson


Bæta þarf stöðu tæknimála

Vinna við nýja framtíðarsýn Hafrannsóknarstofnunar og stefnumótun er enn í gangi. Samhliða henni var farið í ítarlegar greiningar á stöðu tæknimála. Greiningar voru unnar af KPMG og Syndis og leiddu þær í ljós að verulegra úrbóta er þörf á tæknimálum hjá Hafrannsóknarstofnun. Það verður eitt af verkefnum næstu ára að bæta þá stöðu. Ljóst er að stofnunin getur jafnframt nýtt tæknilausnir betur við rannsóknir, gagnavistun og nýtingu gagna til rannsókna.