Fara í efni

Sjávarútvegsskóli GRÓ

Þrátt fyrir ýmsar áskoranir tengdar Covid-19 heimsfaraldrinum var árið 2021 ágætt í starfsemi Sjávarútvegsskólans. Þannig var t.d. hægt hefja að nýju sex mánaða þjálfunarnám skólans um haustið en því hafði þurft að fresta árið áður vegna ferðatakmarkanna. Það var sannarlega ánægjulegt að taka á móti stærsta árganginum til þessa, 28 nemendum (14 körlum og 14 konum).

mynd af nemendum Sjávarútvegsskóla GRÓ

Nemendur GRÓ sem hófu nám 2021 við útskriftarathöfn 2022.

Á meðan hefðbundin starfsemi skólans lág niðri vegna faraldursins framan af ári 2021, gafst svigrúm til að ráðast í hönnun nýs kennsluefnis, svo og til að endurskoða ýmis atriði í kennslufyrirkomulaginu, en vonir standa til að hvorutveggja muni skila sér í enn markvissari og betri kennslu á næstu árum.

Ferðatakmarkanir kölluðu á nýjar leiðir til að ná til samstarfsaðila skólans. Árangur þeirrar vinnu skilaði sér í röð myndbanda um Heimsmarkmið 14, þar sem sjónum er beint að nokkrum grundvallarvandamálum sem standa þróun sjávarútvegs í heiminum fyrir þrifum. Efni þetta var gefið út vorið 2021 og hlaut góðar viðtökur. Hægt er að nálgast myndböndin á „YouTube síðu“ skólans (https://youtu.be/W4-iAM13WFI).

Sex mánaða þjálfunarnámið

Sá árgangur sem hóf sex mánaða þjálfunarnám haustið 2021 var sá stærsti til þessa í sögu skólans, en í honum voru 28 sérfræðingar frá 17 löndum. Meðal nemendanna voru 18 frá Afríku, 12 frá fátækustu þróunarlöndum heims og fjórir frá smáeyþróunarríkjum. Kynjahlutfallið í hópnum var jafnt, 14 karlar og 14 konur. Flestir (11) sérhæfðu sig á sviði „stefnumótunar og stjórnunar fiskveiða“ (í umsjón Háskólans á Akureyri); sjö á sviði „mats og eftirlits nytjastofna“ (Hafrannsóknastofnun); sex á sviði „gæðastjórnunar framleiðslu sjávarafurða“ (MATÍS); og fjórir á sviði „sjálfbærs fiskeldis“ (Háskólinn á Hólum).

Það var einkar ánægjulegt að dyr fyrirtækja, stofnana og samtaka, sem nemendur skólans heimsækja alla jafnan meðan á dvöl þeirra stendur hér á landi, skyldu standa þeim opnar nú sem endranær, þrátt fyrir varúðarráðstafanir þær sem þurfti að viðhafa vegna ástands faraldursins.

Skólastyrkir

Sjávarútvegsskólinn styður við áframhaldandi færniuppbyggingu fyrrum nemenda sinna með margvíslegum hætti. Þannig býðst t.d. þeim sem lokið hafa sex mánaða þjálfunarnáminu að sækja um styrk til meistara- eða doktorsnáms við íslenska háskóla. Síðan árið 2005 hefur skólinn veitt 35 slíka styrki; 14 til meistaranáms, 16 til doktorsnáms og 5 til meistara- og doktorsnáms. Árið 2021 voru tveir styrkir veittir til meistaranáms (báðir til kvenna) og sex til doktorsnáms (þar af fjórir til kvenna).

Starfsmannamál Sjávarútvegsskólans 

Í október árið 2021 fékk forstöðumaður Sjávarútvegsskólans, Þór Ásgeirsson, tveggja ára leyfi til að sinna verkefnum á Salómonseyjum fyrir Alþjóðabankann. Síðan þá hefur aðstoðarforstöðumaður skólans, Mary Frances Davidson, fyllt hans skarð. Ennfremur hefur Agnes Eydal starfsmaður Hafrannsóknastofnunar flutt sig yfir til skólans til að létta undir með starfsemi hans meðan á sex mánaða þjálfunarnáminu stendur. Aðrir starfsmenn skólans árið 2021 voru Stefán Úlfarsson, Julie Ingham og Tumi Tómasson (í 49% stöðu).