Ársskýrsla Hafrannsóknastofnunar
2021
2021
Hafrannsóknastofnun Vöktun og aðrar rannsóknirRáðgjöf og umsagnir
Hafrannsóknastofnun Vöktun og aðrar rannsóknirRáðgjöf og umsagnir
Líkt og segja má um flesta starfsemi hér á landi var árið 2021 sérstakt fyrir starfsemi Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna. Vegna margvíslegra sóttvarnartakmarkana stóran hluta ársins var starfsemi stofnunarinnar með öðrum hætti en vonast var til. Með þrautseigju starfsmanna tókst þó að halda úti vöktun auðlinda og rannsóknum, að mestu eins og áætlanir gerðu ráð fyrir. Slíkt var ekki sjálfgefið við þær aðstæður sem uppi voru og má þakka starfsliði stofnunarinnar vítt og breitt um landið fyrir hversu vel til tókst að halda starfseminni gangandi.
Í þessari skýrslu um starfsemi Hafrannsóknastofnunar árið 2021 er að finna samantekt um rannsóknastarfsemina á árinu 2021 bæði reglubundin verkefni en einnig er að finna samantekt á áhersluverkefnum sem unnin voru á árinu. Þá er samantekt um samstarf við innlendar og erlendar samstarfsstofnanir og háskóla ásamt yfirliti um starfsemi Sjávarútvegsskóla Þróunarsamvinnumiðstöðvar UNESCO sem er hluti af GRÓ og Hafrannsóknastofnun rekur. Einnig er að finna yfirlit um rekstur ársins 2021 sem og yfirlit yfir mannauðsmál.
Í byrjun apríl tók undirritaður við sem forstjóri stofnunarinnar til næstu 5 ára í stað Sigurðar Guðjónssonar sem lét af störfum eftir að hafa leitt stofnunina frá sameiningu Veiðimálastofnunar og Hafrannsóknastofnunar árið 2016. Sigurður leiddi sameiningu stofnananna en umtalsverð áskorun og vinna fólst í að sameina tvær grónar stofnanir og endurskipuleggja starfsemina samkvæmt nýjum lagaramma sem og að móta reksturinn til framtíðar. Á þeim árum sem Sigurður starfaði á Hafrannsóknastofnun tókst stofnunin á við margar áskoranir og náði mikilvægum áföngum. Má þar nefna aðlögun nýrra höfuðstöðva að þörfum rannsóknastarfseminnar og flutning í nýtt húsnæði í Hafnarfirði, undirbúning vegna smíði nýs rannsóknaskips og innleiðingu áhættumats fyrir laxeldi í sjó svo eitthvað sé nefnt. Stofnunin þakkar Sigurði fyrir vel unnin störf á annasömum tímum.
Á haustdögum 2021 hófst vinna við að móta nýja framtíðarsýn fyrir Hafrannsóknastofnun til ársins 2026. Að þeirri vinnu komu allir starfsmenn stofnunarinnar og saman mótuðum við okkar sýn til næstu 5 ára. Sýnin er einföld og rúmast í einni setningu: Hafrannsóknastofnun er leiðandi í rannsóknum á vistkerfum hafs og vatna og ráðgjöf um sjálfbæra nýtingu. Þessi sýn lýsir þeim metnaði og krafti sem býr í þeim góða mannauði sem á stofnuninni starfar. Þá voru sett markmið fyrir ýmsa þætti í starfseminni sem munu hjálpa okkur við að framfylgja sýninni. Við vinnu starfsmanna komu jafnframt fram tillögur að bættu skipulagi og því var ákveðið að frá og með 1. janúar 2022 tæki gildi nýtt skipurit þar sem breytingar voru gerðar á rannsóknasviðum og stoðsvið efld.
Í sumarlok var boðin út smíði nýs rannsóknaskips sem ætlað er að koma í stað rs. Bjarna Sæmundssonar sem kominn er til ára sinna eftir ríflega 5 áratuga þjónustu við hafrannsóknir. Þrjár skipasmíðastöðvar buðu í smíðina og eftir samningaviðræður við alla aðila var þeim boðið að bjóða að nýju og í því útboði bauð skipasmíðastöðin ARMON sem staðsett er í Vigo á Spáni lægst í smíðina. Gert er ráð fyrir að fyrir lok árs 2022 verði samningur undirritaður og að nýtt skip komi til heimahafnar síðla sumars 2024.
Það er og hefur verið stefna íslenskra stjórnvalda að stunduð sé sjálfbær nýting nytjastofna, grunnrannsóknir séu efldar og að nýting hafsvæða sé sjálfbær. Íslensk þjóð á mikið undir þegar kemur að náttúruauðlindum og árið 2020 voru um 40% útflutningstekna þjóðarinnar frá fiskveiðum og fiskeldi. Hafrannsóknastofnun sinnir lykilhlutverki við að framfylgja þeirri stefnu sem lögð hefur verið enda eru rannsóknir og vöktun á lífríki hafs og vatna grundvöllur sjálfbærar nýtingar auðlinda.
Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað áratuginn 2021-2030 hafrannsóknum í þágu sjálfbærrar þróunar. Áratugur hafsins er einstakt tækifæri fyrir þjóðir heims til að vinna saman að því að styðja hafrannsóknir í þágu sjálfbærni heimshafanna sem allt mannkyn deilir. Fyrir þjóð sem á stóran hluta lífsafkomu sinnar undir auðlindum hafsins er mikilvægt að stundaðar séu öflugar rannsóknir og vöktun á umhverfisþáttum og lífríki hafs og vatna. Það er mikilvægt að stofnunum sem rannsaka og vakta auðlindir sem standa undir stórum hluta okkar velsældar sem þjóðar sé gert kleift að sinna sínu hlutverki sem best og með þeirri nákvæmni sem krafist er með besta mögulega tækjabúnaði. Slíkt verður þó ekki gert nema með samstilltu átaki og eflingu rannsókna á hafinu kringum Ísland. Mikilvægt er að áratugur hafsins feli í sér annað og meira en kyrrstöðu enda er brýn þörf á að auka þekkingu á vistkerfum sjávar.
Þorsteinn Sigurðsson