Fara í efni

Rannsóknasamstarf

Lykill að góðum árangri í rannsóknum er farsælt samstarf. Líkt og árið á undan þurfti starfsfólk stofnunarinnar að aðlaga sig að þeim ramma sem Covid-19 farsóttin hafði sett á innlent samstarf, alþjóðastarf og samskipti almennt. Með aukinni reynslu af nýtingu fjarfundabúnaða og lausnarmiðaðri nálgun tókst þó með ágætum að sinna þeim samstarfsverkefnum sem unnið var að árið 2021.

Hafrannsóknastofnun tók þátt í fjölbreyttu innlendu og alþjóðlegu rannsóknasamstarfi árið 2021.

mynd sem sýnir samstarfsaðila

Helstu samstarfsaðilar við birtingu vísindagreina í ritrýndum tímaritum árið 2021. Prósentutölur segja til um hlutfall þeirra greina sem birtust eftir vísindamenn Hafrannsóknastofnunar sem unnar voru í samstarfi við ákveðna stofnun eða háskóla. Háskóli Íslands var helsti samstarfsaðili. Fjórðungur greina sem birtust frá vísindamönnum Hafrannsóknastofnunar voru unnar í samstarfi við vísindafólk Háskóla Íslands.

Þetta fjölbreytta samstarf fer meðal annars fram í rannsóknaverkefnum sem styrkt eru af evrópsku Horizon 2020 rammaáætluninni um rannsóknir, en stofnunin var þetta árið þátttakandi í 11 slíkum verkefnum. Þetta samstarf er mikilvægt þar sem öflugar rannsóknir eru yfirleitt þess eðlis að engin ein þjóð getur unnið þær, hvorki hvað varðar umfang né kostnað. Góður árangur Hafrannsóknastofnunar í alþjóðlegum rannsóknaverkefnum sýnir fram á þann mannauð sem felst í vísindamönnum stofnunarinnar. Auk evrópusamstarfs tók stofnunin þátt í ýmsu norrænu samstarfi þar sem vísindamenn frá Norðurlöndunum hittust, deildu þekkingu og miðluðu af reynslu í gegnum fastanefndir og styrkta viðburði.

Fyrir utan rannsóknasamstarf þá er starfsfólk stofnunarinnar í margvíslegu samstarfi við innlendar og erlendar stofnanir og fyrirtæki. Til dæmis hefur stofnunin verið í samstarfi við fyrirtækið Gagarín og Náttúruminjasafn Íslands um miðlun þekkingar um haf- og vatnakerfi. Fór fram talsvert samstarf við aðrar innlendar stofnanir, s.s. Umhverfisstofnun, Matís, Matvælastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Samstarf við háskóla um kennslu

Öflugt nám á háskólastigi í þeim fræðigreinum sem helst nýtast í starfsemi Hafrannsóknastofnunar er forsenda þess að eðlileg endurnýjun geti orðið á mannauð stofnunarinnar til framtíðar litið. Haustið 2020 hófst kennsla í meistaranámi í fiskifræði og skyldum greinum, og fer skipulag námsins og kennsla fram í samstarfi milli Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunar. Fjöldi sérfræðinga hjá stofnuninni koma þar að kennslu. Starfsmenn stofnunar koma einnig að ýmsu öðru háskólanámi, s.s. í gegnum stundakennslu, með leiðbeiningu nemenda í meistara- eða doktorsnámi og með samningi um sameiginlega stöðu sérfræðinga.