Mannauður
Hafrannsóknastofnun leggur áherslu á að vera eftirsóknarverður vinnustaður með markvissri jafnréttisstefnu og aðstæðum þar sem árangursríkt starf og faglegur metnaður getur dafnað. Hjá stofnuninni vinnur fjölbreyttur hópur með ólíkan bakgrunn sem gerir stofnunina að skemmtilegum og áhugaverðum vinnustað. Starfsfólk stofnunarinnar er af 13 þjóðernum, á öllum aldri og með margskonar menntunarlegan bakgrunn.
Í lok árs 2021 var starfsfólk Hafrannsóknastofnunar 190 í 181 stöðugildi. Starfsemin var dreifð á 10 starfstöðvar um allt land en flestir vinna á aðalstarfsstöð stofnunarinnar í Hafnarfirði. Starfsmannavelta stofnunarinnar árið 2021 var 7,12%, starfsmannavelta að frádregnum starfslokum vegna heilsubrests eða lífeyristöku var 4,93%. Kynjahlutföllin voru 35% konur, 65% karlar. Þegar kynjahlutföll eru skoðuð án áhafna á rannsóknaskipun stofnunarinnar þá eru hlutföllin jafnari eða 44% konur og 56% karlar. Meðalaldur starfsfólks var 49,3 ár.
Á árinu létu fjögur af störfum sökum aldurs, Ástþór Gíslason, Guðbjörn Jóhannsson, Reynir Baldursson og Þorleifur Frímann Guðmundsson eftir langt og giftusamlegt starf.
Árið einkenndist af sóttvörnum og samkomutakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins eins og árið á undan og tókst vel til að halda starfsemi stofnunarinnar gangandi enda starfsfólk orðið vel þjálfað. Engin leiðangur féll niður eða var seinkað á árinu þrátt fyrir Covid-19 og má það þakka góðu verklagi og mikilli ábyrgð starfsfólks í áhöfnum rannsóknaskipa og leiðangursfólks.
Umhverfisvitund
Í starfi sínu hefur Hafrannsóknastofnun sjálfbæra þróun og vernd umhverfisins að leiðarljósi og leggur áherslu á að stuðla að góðri umhverfisvitund starfsfólks. Stefnan tekur til allrar starfsemi stofnunarinnar, þ.m.t. innkaupa, vinnuumhverfis á sjó, vötnum og landi, notkun efna og orku, góðri meðferð afla, ásamt meðhöndlun efna og úrgangs.
Umhverfisteymi er starfandi hjá stofnuninni og ber ábyrgð á framkvæmd umhverfisstefnunnar í umboði framkvæmdastjórnar. Jafnframt skal teymið koma með tillögur um endurskoðun umhverfisstefnunnar, Þriðja Græna skrefið fékk Hafrannsóknastofnun 9. desember 2021.
Markmið
- Innleiðing Grænna skrefa.
- Minni orkunotkun.
- Minna sorp.
- Sérstök gát á eiturefnum sem stofnunin notar.
- Vistvænar samgöngur verði notaðar ef þess er kostur.
- Umhverfisstefnan sé sýnileg og í stöðugri þróun.